Verðum á gráa listanum að minnsta kosti fram á haust

16.02.2020 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gert er ráð fyrir að Ísland verði á gráum lista FATF um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að minnsta kosti fram á haust. Tíu manna sendinefnd er farin til fundar við FATF sem hefst í París í kvöld, til að tala máli Íslands.

Ísland var sett á gráan lista FATF, samtaka sem berjast gegn peningaþvætti, í október. Þá vonuðust stjórnvöld eftir því að Ísland kæmist af listanum strax nú í febrúar. Ljóst er að af því verður ekki.

Sendur hefur verið tíu manna hópur til næstum vikulangs fundar við FATF í París, þar sem Ísland fer yfir hvernig brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem FATF gerði við peningaþvættisvarnir á Íslandi. Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, fer fyrir hópnum. „Það gengur allt samkvæmt áætlun og í rauninni hraðar heldur en ráð var fyrir gert,“ segir Björn. „Þannig að það verður farið yfir þennan framgang og við gerum okkur vonir til þess að jafnvel á næsta fundi í júní að þá verði tekin ákvörðun um að þá komi starfshópur í kjölfarið til okkar til að fara yfir þennan árangur og við vonandi förum þá af listanum í haust.“

Verður sektað fyrir að skrá ekki raunverulega eigendur

Eitt af því sem enn stendur út af varðandi varnir gegn peningaþvætti er skráning raunverulegra eigenda fyrirtækja og félaga í fyrirtækjaskrá. Eftir 1. mars verða þeir sektaðir sem ekki hafa gengið fullnægjandi frá þeirri skráningu.

Fram kom í fréttum í síðustu viku að íslenskur framhaldsskólanemi í Svíþjóð fær ekki að opna bankareikning, þar sem Ísland er á gráa listanum. Björn hefur ekki mikið orðið var við að fyrirtæki eða einstaklingar lendi í slíkum vandræðum. „Það hafa komið af því tíðindi í fjölmiðlum en ekki mörg, en við höfum ekki mörg tíðindi af því nei,“ segir Björn.