Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verðmiði nýs flugvallar 300 milljarðar

21.11.2019 - 17:05
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Það gæti tekið allt að 20 ár að leggja flugvöll í Hvassahrauni í útjaðri Hafnafjarðar fyrir bæði millilanda- og innanlandsflug eftir að ákvörðun væri tekin. Kostnaður við nýjan millilanda- og innanlandsflugvöll gæti orðið að lágmarki 300 milljarðar króna. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið og kynnt í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í morgun.

Kynnt eftir helgi

Samgönguráðherra fól í fyrra starfshópi undir stjórn Eyjólfs Árna Rafnssonar að útfæra hugmyndir um flugvallakosti á suðvesturhorni landsins. Skýrslan var kynnt í þingnefndinni í morgun og verður líklega formlega kynnt og opinberuð á mánudaginn. 

Völlurinn færi yfir Suðurgötu

En eins og komið hefur fram áður þá er nýr flugvöllur ekki handan við hornið. Þeir sem bíða eftir að byggja og búa í Vatnsmýrinni gætu þurft að bíða í allt að 30 ár. Starfshópurinn telur ekki vænlegt að endurnýja Reykjavíkurflugvöll. Það gæti kostað 15 til 20 milljarða og nauðsynlegt væri að lengja flugvöllinn yfir Suðurgötuna og einnig að leggja hann út í Fossvoginn.

Innanlandsflugið í hraunið

Helst er litið til þess að flugvöllur verði lagður í Hvassahrauni. Að leggja flugvöll þar myndi kosta um 40 milljarða eða 15-20 milljörðum meira en að endurnýja Reykjavíkurflugvöll. Í þessu tilviki er verið að tala um kostnað við að flytja innanlandsflugið í hraunið og að flugvöllurinn geti gegnt hlutverki sem varaflugvöllur. Kennslu- og æfingaflug yrði væntanlega þar líka en kanna þarf nánar hvar því verður komið fyrir.

Minnsta kosti 300 milljarðar

Hins vegar ef byggður yrði fullkominn millilanda- og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni er verið að tala um að kostnaður við slíka framkvæmd yrði ekki undir 300 milljörðum króna. Óvissa er reyndar um tölur. Í þessu tilvik er óvissa helst um hvers miklu dýrari völlurinn yrði.

Dýrara að flytja flugið til Keflavíkur

Það vekur hins vegar athygli að kostnaður við að flytja innanlandsflug suður á Keflavíkurflugvöll yrði um 44 milljjarðar eða dýrara en að koma honum fyrir í Hvassahrauni.

Eins og einnig hefur komið fram er talið nauðsynlegt að tveir varaflugvellir séu á suðvesturhorninu. Þeir myndu styðja hvor annan.

Ekki á næstunni

En það gæti verið bið eftir nýjum flugvelli. Í skýrslunni kemur fram að það gæti tekið 20 ár að leggja og reisa flugvöll í Hvassahrauni eftir að ákvörðun hefur verið tekin.  Undirbúningur gæti staðið yfir í 3-5 ár. Gera þarf ítarlegar veðurrannsóknir, kanna jarðlög og ýmislegt fleira, svo sem umhverfismat.

Einn viðmælandi Spegilsins sagði að helsta niðurstaðan væri enn og aftur að skoða þyrfti málið. Þetta er langt fá því að vera fyrsta skýrslan um staðsetningu flugvallar í kringum höfuðborgarsvæðið. 

Starfshópur um framtíð Reykjavíkurflugvallar.