Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verðlag hækkað vegna kjarasamninga

23.05.2019 - 16:27
Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ.
 Mynd: RÚV
Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnastjóri verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands segir dæmi um að vöruverð hafi hækkað í aðdraganda kjarasamninga og eftir undirritun þeirra. Fjöldi ábendinga um verðlag berst eftirlitinu í hópnum Vertu á verði á Facebook. Þar er hægt að birta upplýsingar um verðlag hjá verslunum og fyrirtækjum.
Mynd með færslu
 Mynd: ASÍ

Hópurinn er í umsjón verðlagseftirlits ASÍ og var stofnaður 30. apríl. Í honum eru um 3.200 manns.

Auður Alfa segir verðlagseftirlitið ekki hafa bolmagn til að fara yfir hverja einustu ábendingu í hópnum en þó sé gott eftirlit með því sem sett er þangað inn. Meðlimir sinni einnig eftirliti og leiðrétti ef rangar upplýsingar eru birtar. Þangað komi inn misjafnar ábendingar, misvandaðar og hafi ólíkt vægi.

„Þessi hópur á að vera sjálfbær þótt við höldum utan um hann. Ef við sjáum eitthvað sem er algjörlega vitlaust leiðréttum við það. Við getum þó ekki sannreynt allt. Þetta virkar eins og hver annar hópur á Facebook,“ segir Auður Alfa.

Vilja vekja neytendur til umhugsunar

Hún segir að tilgangurinn með Facebook-hópnum sé að virkja samtakamátt neytenda og fá þá til að taka þátt í verðlagseftirliti. ASÍ hafi ekki augu alls staðar og geti ekki fylgst með verðlagi hjá öllum verslunum og fyrirtækjum.

„Þetta vekur fólk til umhugsunar og það veltir frekar fyrir sér verðlagi. Þetta er aðhald fyrir fyrirtæki,“ segir Auður Alfa. „Það er aðhald fyrir fyrirtæki ef þau „eiga á hættu“ að fá umfjöllun þarna, til að mynda með að hækka verð umfram almenna verðlagsþróun og svína á neytendum.“

Auður Alfa segir til að mynda að neytandi hafi greint frá því í hópnum að hann hafi verið rukkaður um hátt gjald fyrir bilanagreiningu hjá bílaumboði og leitað til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa hjá Neytendastofu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fjárhæðin sem hann greiddi stæðist ekki og fékk hann því endurgreiðslu.

Ekki hafi enn verið birtar færslur og upplýsingar úr hópnum á Facebook-síðu verðlagseftirlits ASÍ, þar sem hópurinn sé nýr. Auður Alfa segir að allar ábendingar sem þangað komi séu áhugaverðar og skipti máli.

„Ef þar koma fram ábendingar sem hægt sé að sannreyna og eru þess eðlis að við teljum að fleiri ættu að vita af þeim munum við koma til með að gera það í framtíðinni.“

Fyrirtæki hækkuðu verð í aðdraganda kjarasamninga

Auður Alfa segir að borið hafi á því að verslanir og fyrirtæki hafi hækkað verðlag í kjölfar nýundirritaðra kjarasamninga. Einhver gripu til þess ráðs að hækka verð tveimur til þremur mánuðum fyrir undirritun þeirra þar sem þau væntu þess að þeir fælu í sér launahækkanir líkt og varð raunin.

„Ýmsir þjónustuaðilar hafa hækkað, samkvæmt ábendingum. Það er þó ekki algilt að allir séu að hækka núna,“ segir Auður Alfa.

ASÍ hafi virkt eftirlit með verðlagi, einkum á matvælum en einnig öðrum liðum sem vegi þungt í útgjöldum Íslendinga, sem og opinberum gjöldum. Fylgst sé með vísitölu neysluverðs og hækkanir skoðaðar.

„Um leið og við erum búin að fara yfir gögnin gefum við það út. Við erum alltaf með svokallaða vörukörfu þar sem við skoðum verð innan verslana. Það verður athyglisvert að sjá hvernig vörukarfan hefur þróast en við gefum það út eftir helgi.“