Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Verða ekki þungavigtarmenn að eilífu“

Mynd: Fréttir / RÚV
„Þó þetta sé áberandi að ýmsir gamlir þungavigtarmenn séu mjög gagnrýnir á flokksforystuna þá virðist vera eining í þingflokknum og þungavigtarmenn verða ekki þungavigtarmenn að eilífu,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segir að vísir að klofningi sé kominn upp innan Sjálfstæðisflokksins.

Fyrirhuguð samþykkt þriðja orkupakkans veldur titringi innan Sjálfstæðisflokksins. Gamlir áhrifamenn í flokknum gagnrýna núverandi forystu og hafa rótgrónir Sjálfstæðismenn sagt sig úr flokknum. 

Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður og nú ritstjóri Morgunblaðsins, hefur notað þann vettvang óspart að undanförnu til að gagnrýna forystu flokksins í málinu. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og fleiri rótgrónir Sjálfstæðismenn hafa tjáð sig á svipuðum nótum.

Ólafur segist varla muna eftir dæmi þar sem fyrrverandi formaður hundskammi eftirmenn sína og nýja forystu eins og óþekka krakka, líkt og Davíð sé eiginlega að gera. Hann tekur fram að áhugavert sé að á meðan margir aðrir núverandi formenn flokksins hafi látið skammir Davíðs yfir sig ganga, svari ungar konur innan flokksins honum fullum hálsi. 

Háværar sögusagnir hafa þó verið um fjölda úrsagna. Bolli Kristinsson athafnamaður, sem hefur lengi verið dyggur bakhjarl, greindi frá því í dag að hann hefði gengið úr flokknum vegna orkupakkamálsins og sagði í Bítinu í Bylgjunni að flokkurinn væri að liðast í sundur. Elinóra Inga Sigurðardóttir, stofnandi Orkunnar okkar, sagði sig úr flokknum af sömu ástæðum fyrir nokkrum dögum eftir þrjátíu ára grasrótarstarf.

Ólafur segir að það væru þó meiri tíðindi ef gömlu þungavigtarmennirnir gengu úr flokknum og færu til að mynda yfir í Miðflokkinn, eða hættu afskiptum af stjórnmálum. „Ég held að það sé ólíklegra en hitt“, segir hann þó.