Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verða að bregðast skjótt við hatursorðræðu

10.07.2019 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Franska þingið hefur samþykkt lög gegn hatursorðræðu á netinu. Lögin gera samfélagsmiðlum skylt að fjarlægja særandi efni innan sólarhrings og búa til nýjan hnapp á síðununum þar sem notendur geta tilkynnt ofbeldi.

Lögin voru samþykkt í neðri deild franska þingsins með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, 434 greiddu atkvæði með og 33 á móti. 69 þingmenn sátu hjá. Lögin eiga sér fyrirmynd í þýskri löggjöf sem tók gildi í fyrra. 

Þeir samfélagsmiðlar sem ekki fjarlægja „augljóslega hatursfullt“ efni eiga á hættu að verða sektaðir um rúmlega eina milljón evrur. Þetta á einnig við um leitarvélar á borð við Google. 

Efri deild þingsins tekur málið til meðferðar að loknum sumarleyfum og gæti lagt til einhverjar breytingar, segir í frétt AFP. 

Samfélagsmiðlar voru gagnrýndir harðlega á leiðtogafundi í París í maí fyrir að gera ekki nóg til að stöðva hatursorðræðu. Þetta var um tveimur mánuðum eftir að ódæðismaður réðist til inngöngu í tvær moskur í Christchurch á Nýja Sjálandi og sýndi frá í beinni útsendingu á Facebook. Afriti af upptökunni var deilt í milljónum eintaka, þrátt fyrir tilraunir til að fjarlægja hana. Facebook, YouTube og fleiri stór samfélagsmiðlafyrirtæki hafa á undanförnum mánuðum talað um að tekið verði harðar á hatursfullu og ofbeldisfullu efni á miðlunum. 

Telur málið varða almannaheill

Þingmaðurinn Laetitia Avia er ein af þeim sem skrifaði frumvarpið. Hún segir á Twitter að hatursorðræða á netinu sé mál sem varði almannaheill og að mikill meirihluti Frakka hafi séð eða upplifað hana.

„Við verðum að tryggja öryggi og vernd fólks á netinu, sérstaklega þá sem eru berskjaldaðir,“ sagði hún í ræðu á þinginu. AFP hefur eftir Avia að hún hafi þurft að þola svo mikið kynþáttaníð á Twitter að þegar hún hefði fengið frið fyrir slíku í einn dag, hefði hún talið að það væri vegna tæknilegra örðugleika. 

Telja sólarhring ekki nægan tíma

Gagnrýnendur löggjafarinnar telja að hún veiti samfélagsmiðlum of mikil völd til að meta orðræðu á netinu. Þá hefur Facebook dregið í efa að sólarhringur dugi til að leggja mat á færslur, því margar færslur séu þess eðlis að greining taki tíma og meta út frá lögum. 

Þingmenn rökræddu fram á nótt í síðustu viku um hvað félli undir augljósa hatursorðræðu eða hatursfullt myndefni. Þeir náðu saman um að skilaboð sem styddu glæpi gegn mannkyni væru hatursfull en breytingartillögum með sérstökum tilvísunum í gyðingahatur og hatur í garð Ísraelsríkis var hafnað og náðu ekki í lokaútgáfu frumvarpsins.