Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verð hækkað í 8 af 10 matvöruverslunum

28.05.2019 - 13:06
Mynd með færslu
Notendur smáforritsins þurfa aldrei aftur að fara út úr húsi. Mynd: - - ruv.is
Vörukarfa Alþýðusambands Íslands hækkaði í átta verslunum af tíu frá fyrstu viku nóvembermánaðar til annarrar viku maí. Það hækkaði mest í verslunum 10-11 en minnst í Bónus og Kjörbúðinni.

Verðlagseftirlit ASÍ stóð fyrir könnuninni sem framkvæmd var vikurnar 29. október til 4 nóvember 2018, 25.-35. mars og 6.-12. maí 2019.

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Super 1, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Krambúðinni, Samkaupum-strax og 10-11 að því segir í fréttatilkynningu frá ASÍ.

Mest hækkun hjá 10-11

Mest hækkaði vörukarfan í 10-11 eða um rúmlega 5%. Hún hækkaði minnst í Bónus og Kjörbúðinni, um 0,3%.

Vörukarfan lækkaði á tímabilinu í Samkaup strax um 1,2% og um 0,6% í Krambúðinni.

Verð á brauð- og kornvörum, sykri, sælgæti og drykkjarvörum hækkaði mest á tímabilinu og má sjá hækkanir í þessum vöruflokkum í nær öllum verslunum.

Verð á mjólkurvörum og hreinlætis- og snyrtivörum hækkaði í einhverjum verslunum en lækkuðu í öðrum. Mestar verðsveiflur eru kjötvörum og grænmeti og ávöxtum milli tímabila.

Þetta er í samræmi við undirliðinn mat og drykkjarvörur í vísitölu neysluverðs en hækkunin á þeim lið á tímabilinu nóvember-maí nemur 1,7%. Stór hluti þeirrar hækkunar kemur þó fram í maí mánuði eða 0,7%.

Super 1 hækkar mest lágvöruverðsverslana

Í lágvöruverðsverslunum hækkaði verð mest hjá Super 1 eða um 3,5% og einkum vegna verðhækkana á kjöt- og mjólkurvörum.

Af lágvöruverðsverslununum hækkaði vörukarfan næst mest hjá Nettó um 3,2%. Þar munar mestu um hækkanir á brauð- og kornvörum ásamt drykkjarvörum.

Vörukarfan hækkaði um 1% í Krónunni. Það má rekja til verðhækkana á brauð- og kornvörum, kjötvörum og hreinlætis- og snyrtivörum.

Í Bónus hækkar vörukarfan um 0,3% vegna hækkana á brauð- og kornvörum, drykkjarvörum og ýmsum öðrum matvörum.

Í stórmörkuðum og svokölluðum klukkubúðum var mesta verðhækkunin í verslunum Tíu ellefu eða um 5%. Þar munar mestu um hækkanir á grænmeti og ávöxtum, mjólkurvörum, sykri, súkkulaði og sælgæti og drykkjarvörum.

Í Hagkaup hækkaði verð um 3,1% en þar hafa mest áhrif hækkanir á brauði og kornvörum, kjöt- og mjólkurvörum, sykurvörum, drykkjarvörum og hreinlætisvörum.

Vörukarfan í Iceland hækkaði einnig umtalsvert, um 2,9%. Þar hækkuðu kjötvörur um 11,4%. 

Í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs

Hækkanirnar eru samræmi við undirliðinn mat og drykkjarvörur í vísitölu neysluverðs. Hækkunin á þeim lið á tímabilinu nóvember-maí nemur 1,7%. Stór hluti hennar kemur þó fram í maí eða 0,7%.

Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar matar- og drykkjarvörur, til að mynda brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara.

Við samsetningu hennar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Þær segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðal heimilis.