Verð á kjötvöru hækkar við gengisfall krónunnar

25.03.2020 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nokkrar afurðastöðvar hafa undanfarið tilkynnt um allt að fimm prósenta verðhækkun á kjötvörum til verslana. Aðalástæðan er sögð lækkun íslensku krónunnar og aukinn framleiðslukostnaður þess vegna.

Þær tilkynningar um verðhækkanir sem birst hafa síðustu daga eru á bilinu 3 til 5 prósent og eiga við verð á öllum vöruflokkum afurðastöðvanna.

Mikil hækkun á framleiðslukostnaði

Steinþór Skúlason forstjóri SS segir að hækkunin hjá þeim sé um 3 prósent. SS tilkynnti um hækkanirnar í gær og taka þær gildi annan mánudag. Steinþór segir að ástæðan sé fyrst og fremst gengisfall íslensku krónunnar undanfarið, þó fleiri þættir spili þar inn í. Lækkun krónunnar hafi í för með sér mikla hækkun á framleiðslukostnaði, rekstravörur hækki sem og gjöld sem fyrirtækið þurfi að greiða.

Vonandi aðeins tímabundin veiking krónunnar

Geir Gunnar Geirsson, forstjóri Stjörnugríss tekur í sama streng. Hjá þeim er verðhækkunin 5 prósent. Hann segir að eftir að gengið fór af stað hafi hráefnisverð hækkað og þá hafi öll rekstrarvara og umbúðir í kjötvinnslunni hækkað mikið. Geir segist vona að þessi veiking krónunnar gangi til baka á einhverjum tíma og sem fyrst verði hægt að snúa aftur í eðlilegar rekstraraðstæður.

Óhagræði af aðgerðum vegna kórónuveirunnar

Þeir fulltrúar afurðastöðvanna sem rætt var við í morgun segja talsvert óhagræði fylgja aðgerðum vegna kórónuveirunnar. Tilkostnaður við framleiðsluna aukist þegar breyta þurfi fyrirkomulagi á vinnustöðum, færa til fólk og breyta vöktum. Þá aukist yfirvinna og álag á starfsfólkið. Allir voru þó sammála um að þessum kostnaði yrði ekki velt út í verðlagið. Þetta sé ástand sem taki enda og vonandi sem allra fyrst.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi