Vélsleðar fóru fram af snjóhengju - Þyrlan flutti tvo

29.03.2020 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti nú rétt fyrir klukkan sex við Landspítalann í Fossvogi með tvo slasaða einstaklinga sem lentu í vélsleðaslysi við Veiðivötn fyrr í dag.

Tildrög slyssins urðu þau að einn vélsleði fór fram af snjóhengju og svo annar á eftir, sem lenti á konunni sem var á fyrri sleðanum. Samferðarfólk náði að flytja þau slösuðu til móts við björgunarsveitir, en einn til viðbótar var svo fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. 

Jón Hermannsson hjá svæðisstjórn Landsbjargar segir í samtali við fréttastofu að snjóblinda hafi verið á svæðinu og lélegt skyggni. Þyrla Landhelgisgæslunar gat ekki lent á slysstað og því þurfti að flytja þau slösuðu að Búrfelli. Hann gat ekki sagt til um alvarleika meiðslanna, en sagði að alltaf væri grunur um alvarlega ávarka þegar þyrla væri kölluð til.

Um 50 björgunarsveitarmenn tóku þátt í útkallinu, auk sjúkraflutningamanna og þyrlu Gæslunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Frá aðgerðum á Suðurlandi í dag.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi