Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vélmenni drekka te og horfa á sjónvarpið

Mynd: RÚV / RÚV

Vélmenni drekka te og horfa á sjónvarpið

07.02.2020 - 15:40

Höfundar

Í Hafnarhúsinu hafa nú hreiðrað um sig fjórar vinkonur sem halda þar teboð, horfa á sjónvarpið og spjalla. Vinkonurnar eru mekanískar gínur og eru þær hluti af sýningunni Sæborg sem stendur þar yfir, með verkum eftir Erró. Sýningarstýra er Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur og höfundur bókarinnar Sæborg.

Á sýningunni Sæborg mætast hið mennska og hið vélræna í málverkum, innsetningum og fígúrum eftir póstmóderníska myndlistarmanninn Erró. Sæborg er aðlögun á enska orðinu cyborg sem vísar til samruna tækni og mannslíkamans. Á sýningunni má meðal annars hitta fyrir sjaldséðar mekanískar gínur eftir listamanninn sem eru Úlfhildi Dagsdóttur sýningarstýru að góðu kunnar en hún hefur tvisvar áður stýrt sýningum þar sem þessar gínur Errós hafa fengið að vera með. „Mér fannst augljóst að taka að mér þetta verkefni því ég vissi að þá myndi ég hitta þessar vinkonur mínar aftur,“ segir Úlfhildur hróðug í samtali við Síðdegisútvarpið. Gínurnar fá mikið og verðskuldað pláss á sýningunni því í miðju rýminu sitja þær í teboði, horfa á sjónvarpið og spjalla. „Það fer mjög vel um þær og það er mjög kósý.“

Framtíðin í dúkkulísum

Sýninguna veitir innlit í ákveðna framtíðarsýn listamannsins og fullyrðir Úlfhildur að það sé auðséð að Erró hafi alltaf verið með puttann á púlsinum. „Þessar pælingar með samruna tækni og mannslíkamans hjá raunvísindamönnum koma fram seint á sjötta áratugnum og á sama tíma er Erró að vinna þessi verk sín, klippiverk, gínur og bíómyndina sem þær horfa á í teboðinu,“ segir hún. Þessa framtíðarsýn útfærir Erró meðal annars með sínum frægu klippiverkum sem hanga á veggjum safnsins. „Hann tekur út módel, klippir út andlitsmyndir og líkamsmyndir og svo myndir úr vélatímaritum. Svo límir hann þetta saman eins og í dúkkulísuleik þegar maður klippir út búninga og hengir á dúkkulísurnar.“

Glaðir vaskar og hlæjandi saumavélar

Þótt verkin séu róttæk og að einhverju leyti pólitísk segir Úlfhildur að það sé ekki síst húmor í verkunum eins og oft megi sjá í verkum Errós. „Húmorinn kemur sérlega vel fram í skissubókunum. Þar eru saumavélar með stóra glaða munna, hakkavélar og hrærivélar,“ segir sýningarstýran sposk. „Þarna eru sett augu á tæki, varir og stundum nef. Það er rosalega glaður vaskur og einhvers staðar.“

Gleypum pöddur með hverju hvítvínsglasi

Það er erfitt fyrir Úlfhildi að velja úr sitt uppáhalds verk á sýningunni en hún heldur þó mikið upp á verk sem nefnist taugakerfið. „Þetta er hin hliðin á sæborgarpælingunum sem sýnir hvernig líkaminn er eins konar vél og einhvers konar ofgnótt því sæborgin er alltaf einhvers konar ofgnótt,“ segir hún. „Þegar þú límir eða stingur vél inn í mann er það orðið eitthvað auka. Líkaminn er fullur af drasli og veseni, alls konar dót inni í líffærum og æðum.“ Úlfhildur varð að eigin sögn algjörlega heilluð þegar hún sá myndina í fyrsta sinn. „Inn á milli eru litlar pöddur því það má gera ráð fyrir að skrokkurinn sé fullur af alls konar pöddum. Sjálfsagt gleypum við pöddur með hverju hvítvínsglasi sem við drekkum því flugurnar sækja í það.“

Hún segir mikinn heiður að fá að stýra sýningu sem þessari og varpa nýju ljósi á verk Errós sem flestir landsmenn þekkja vel. „Það hefur verið afar forvitnilegt fyrir bókmenntafræðing að sjá hvað þessi listamaður hefur alltaf endurspeglað það sem það sem hefur verið í gangi hverju sinni, í þessi 65 ár sem sýningin spannar.“

Rætt var við Úlfhildi Dagsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Eins og þverskorin ýsa eftir krabbameinsmeðferð

Myndlist

Svarthvítu verkin minna Erró á Skaftá að sumri

Myndlist

Mótunarár Errós