Velheppnaður hollenskur harmleikur

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Velheppnaður hollenskur harmleikur

09.11.2019 - 13:00

Höfundar

Leikritið Eitur, sem sýnt er á fjölum Borgarleikhússins, er pottþétt verk í vandaðri uppfærslu með góðum leikurum að mati Snæbjörns Brynjarssonar gagnrýnanda.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Hvernig nær maður sér eftir sáran missi? Hvernig getur fólk haldið áfram með lífið eftir að hafa misst barn?

Leitað er svara við þessum spurningum í leikverkinu Eitri, í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Hilmir Snær Guðnason og Nína Dögg Filippusdóttir eru í hlutverkum Hans og Hennar

Eitur heitir á upprunamálinu Gif, og er hollenskt leikrit eftir Lot Vekemans. Vekemans er, og nú er ég eiginlega bara að vitna í leikskrá en ekki að ausa úr eigin viskubrunni, eitt mest leikna leikskáld Hollendinga og leikrit hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála og sett upp í þrjátíu löndum. Gif var frumsýnt árið 2009 en Vekemans byrjaði að skrifa 1995, er enn að og með eigin leikhóp. Nú vona ég að leikhús á Íslandi setji upp fleiri verk hennar því Eitur er afspyrnu vel skrifað - og með fallegum íslenskum texta Rögnu Sigurðardóttur þýðanda.

Verkið mætti kalla hollenskan harmleik um hjónaskilnað, eða kannski öllu heldur sorgarferlið eftir sáran missi, en það segir frá fráskildum hjónum sem hittast mörgum árum eftir að maðurinn stingur af. Endurfundir þeirra eru í kirkjugarðinum þar sem sonur þeirra liggur grafinn, eina barn þeirra, sem lést mörgum árum áður í skelfilegu slysi. Í verkinu eru þau einfaldlega Hann og Hún, en aðrar persónur sem koma til tals eru nefndar á nafn eins og sonur þeirra Jakob og starfsfólk garðsins. Manninum hefur borist bréf um að til standi að færa leiði Jakobs, við fáum aldrei fullkomna skýringu á því hvers vegna en það virðist hafa eitthvað að gera með eiturefni, og það er kannski best að segja sem minnst um það bréf svo ég skemmi ekki þriðja þátt verksins. Látum duga að segja að þau hafa ekki hist síðan hann stakk af til Frakklands með tvær ferðatöskur, tíu mínútur í sjö um áramótin fyrir tíu árum.

Þau eiga að sjálfsögðu margt óuppgert, en núningurinn í verkinu snýst einmitt um hvernig þau hafa unnið úr sorginni. Hann hefur byrjað upp á nýtt, flutt til annars lands og virðist hafa unnið betur úr sorginni með því að halda á ný mið. Hann er blaðamaður og virðist hafa hæfileikann til að horfa á líf sitt úr ákveðinni fjarlægð, sem hún kallar hæðnislega karllæga blaðamannssýn.

Hún hefur ekki flúið. Hún hefur búið áfram í sömu borg, heldur sambandi við móður fyrrverandi eiginmanns síns, jafnvel meira sambandi en hann sjálfur og virðist lifa í fortíðinni, jafnvel njóta þess að syrgja. Hún sækir í það eins og sorgarfíkill og réttlætir það fyrir sjálfri sér.

Þarna takast á tvær sýnir á þjáninguna. Ein manneskja sem telur mögulegt að stjórna lífi sínu. Önnur nýtur stjórnleysisins en neitar að sleppa taki á fortíðinni, óttast ekki að missa tökin bara það að gleyma.

Hans flótti, hennar sjálfsvorkunn

Hilmir Snær Guðnason er eins og áður sagði í hlutverki Hans og Nína Dögg Filippusdóttir er Hún. Nína er framúrskarandi í hlutverki hennar, það virðist eiga vel við hana að leika konur sem velta sér upp úr sjálfsvorkunn og eymd, hún átti nefnilega mjög góðan leik um árið í Tímaþjófinum í hlutverki konu sem nær sér ekki eftir að hafa verið hafnað af elskhuga sínum, en látum nú það ekki rugla okkur, þetta eru gerólíkar sýningar og hlutverk að öðru leyti. Það er í það minnsta spennandi að fylgjast með henni á sviðinu og hún er bæði trúverðug og dýnamísk. Það er dramað sem hennar persóna er orðin háð sem drífur verkið áfram.

Hilmir Snær er yfirleitt góður og stendur sig vel í hlutverki hans, þó svo kannski það hefði verið ágætt að hafa hann með meiri bumbu í hlutverkinu. Hilmir er góður en ég ætla að leyfa mér að vera smásmugulegur og láta það fara í taugarnar á mér að eftir fyrsta þátt, þegar hann fer af sviðinu út í hellidembu kemur hann aftur inn án þess að vera sjáanlega blautur. En það er eiginlega frekar við leikstjóra að sakast þegar kemur að svoleiðis ákvörðunum.

Ágætar umbúðir um of mörg öskur

Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði verkinu, Börkur Jónsson annaðist leikmynd, búningar voru í höndum Þórunnar Maríu Jónsdóttur, tónlist og hljóð var í höndum Garðars Borgþórssonar og leikgervi í höndum Elínar Sigríðar Gísladóttur. Það frábæra við sýningar á litla sviðinu fyrir gagnrýnanda er auðvitað að maður getur nefnt hér um bil alla sem komu að sýningunni.

Tónlistin passar mjög vel við verkið og Flensborgarkórinn syngur vel í völdum köflum. Leikmyndin er raunsæisleg, þetta lítur út eins og dæmigerð módernísk kapella í nútíma-kirkjugarði, parketið, steinklæðningin og japanski garðurinn í glugganum þar með talinn. Þarna er kaffivél og vatnsglös, nokkrir stólar sem hægt er að draga fram og til baka sem gefur leikurum eitthvað til að vinna með í rýminu. Annars er kannski ekki mikið um leikmyndina að segja, þó eflaust megi lesa eitthvað í tákn eins og læsta hurðina, einmanalegt tréð, og svo kalda lýsinguna á ganginum.

Manni sýnist Kristín hafa tekið þá ákvörðun að láta hvorki leikmynd, búninga né tónlist trufla aðalatriðið, sem er leikurinn og leikritið sjálft, og hún nær fram góðri frammistöðu úr báðum leikurum. Ég gæti tuðað yfir því hversu lengi á einum punkti leikararnir öskra hvor á annan. Fyrir minn smekk þá duga tvö öskur fyrir sýningu, og allt annað er öskri of mikið, en sem betur fer þá er sú sena undantekningin, ekki reglan. Já, það augnablik sem öskrin verða fleiri en þrjú er eini punkturinn í verkinu sem mér fannst færa sýninguna úr flokkinum hnökralaus yfir í einn hnökra.

Þessi gagnrýnandi fór þó sáttur úr leikhúsinu. Þetta er pottþétt leikrit í vandaðri uppfærslu með góðum leikurum, og ég endurtek bara áskorun mína til leikhússtjórnendana, ég væri alveg til í að sjá annað leikrit eftir Lot Vekemans.