Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vel fór á með Ólafi Ragnari og Pútín

07.02.2014 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorrit Moussaieff, eiginkona hans, voru á meðal gesta í sérstakri móttöku Pútíns forseta Rússlands í tilefni af setningu Vetrarólympíuleikanna í Sotsí í dag. Vel fór á með þeim í móttökunni og ræddust þau við í svolitla stund með aðstoð túlks.

Fjölmargir þjóðhöfðingjar sækja leikana, en fjarvera margra leiðtoga vestrænna ríkja hefur vakið athygli. Auk forseta Íslands eru forsætisráðherrar Hollands og Ítalíu viðstaddir, sem og forseti og forsætisráðherra Finnlands. Forsetaembættið segir að Ólafur Ragnar eigi fundi með öðrum þjóðarleiðtogum á meðan á leikunum stendur en af öryggisástæðum megi ekki gefa upp, hverja hann hittir.