Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vél, áður í eigu FÍ, lenti í flugslysi í Kenía

11.10.2019 - 16:13
Erlent · Innlent · Afríka · flug · flugslys · Kenía · Samgöngumál
Mynd með færslu
Flugvélin var af sömu gerð og vélin á myndinni. Mynd: Aero Icarus - Flickr
Tveir slösuðust þegar Fokker 50 farþegaflugvél keníska flugfélagsins Silverstone Air fór af flugbraut við flugtak á Wilson-flugvelli í Nairobi, höfuðborg Kenía, í morgun. Alvarlegt flugatvik varð árið 2007 þegar nauðlenda þurfti vélinni, sem þá var í eigu Flugfélags Íslands, á Egilsstaðaflugvelli vegna bilunar í hreyfli.

Unnið að rannsókn málsins

Flugvélin steyptist í gegnum kjarr og tré við flugbrautina á flugvellinum í Kenía áður en hún stöðvaðist loks. Tvennt hlaut minniháttar áverka og var þeim komið undir læknishendur, samkvæmt tilkynningu frá Flugvallastjórn Kenía, KAA. Fimmtíu farþegar voru um borð og fimm í áhöfn.

Unnið að rannsókn málsins og tildrögum slyssins. Samkvæmt fréttaveitunni The East African varð flugmaður var við að ekki væri allt með felldu skömmu áður en vélin fór á loft.

Nauðlentu á Egilsstöðum vegna hreyfilsbilunar

Í nóvember árið 2007 nauðlenti þessi sama flugvél á Egilsstöðum. Vélin, sem þá var í eigu Flugfélags Íslands, var á leið frá Egilsstöðum þegar flugmenn ákváðu að snúa henni við og nauðlenda á Egilsstaðaflugvelli. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að olíuþrýstingur féll á hægri hreyfli vélarinnar og þurfti því að slökkva á honum. 

Við rannsókn á atvikinu kom í ljós að þetta var þekkt bilun hjá framleiðanda sem verið var að reyna að finna lausn á, segir í ársskýrslu rannsóknarnefndar flugslysa frá árinu 2008. Í kjölfarið voru gerðar endurbætur á búnaði. 

Um fjörutíu farþegar voru um borð. Einn farþeganna sagði, í samtali við Vísi.is, að hann hefði talið að sín síðasta stund væri runnin upp þegar farþegum var sagt að búa sig undir nauðlendingu. Vélin lenti svo heilu og höldnu á öðrum hreyflinum og nauðlendingin gekk vel. 

Seldu vélina fyrir tveimur árum

Fyrir tveimur árum seldi Flugfélag Íslands allar fjórar Fokker 50 vélar félagsins. Vélarnar höfðu verið í eigu flugfélagsins frá 1992. Salan var liður í því að endurnýja í flugflota félagsins. 

Keníska flugfélagið festi svo kaup á vélinni í fyrra. Fimm Fokker 50 vélar eru í eigu flugfélagsins. 

Ekki náðist í forsvarsmenn Air Iceland Connect við vinnslu fréttarinnar.