Veittu hinum grunuðu eftirför fyrir handtöku

13.09.2019 - 10:26
Mynd: RÚV / RÚV
Mennirnir þrír sem ákærðir hafa verið fyrir stórfellda framleiðslu á amfetamíni lögðu mikið á sig til að hylja slóð sína. Mál þeirra verður tekið fyrir í héraðsdómi í lok næstu viku.

Héraðssaksóknari ákærði í lok ágúst sex manns í tengslum við umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu. Þar af voru þrír karlmenn ákærðir fyrir umfangsmikla amfetamínframleiðslu í sumarhúsabyggð í Borgarfirði, þar sem lögreglan fann rúmlega 8,5 kíló af efninu.  

Amfetamínið var framleitt í 35 fermetra sumarbústað sem er í eigu föður eins hinna ákærðu. Í bústaðnum fundust líka ógrynni af tækjum og tólum. Tveir hinna ákærðu, Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson, hlutu fyrir um áratug níu og hálfs og sjö ára fangelsisdóma í Pólstjörnumálinu svokallaða.

Landsréttur birti á vef sínum, að beiðni fréttastofu, þá réttarúrskurði sem fyrir liggja í málinu. Þar er því meðal annars lýst hvernig löreglan veitti þremenningunum eftirför þann 7. júní, daginn sem þeir voru handteknir. Í grófum dráttum var atburðarásin þessi.:

Að morgni 7. júní fer Alvar ásamt þriðja manninum til Keflavíkur þar sem þeir taka tvo bíla á leigu. Þeir keyra bílana aftur á höfuðborgarsvæðið og hittast í Hraunbæ. Þeir Alvar og Einar Jökull halda í Borgarfjörð þar sem amfetamínframleiðslan fór fram. Þriðji maðurinn heldur hins vegar til Þykkvabæjar til að huga að kannabisframleiðslu, en snýr svo til baka, skiptir um bíl í Hraunbæ og heldur upp í Borgarfjörð til móts við þá Alvar og Einar Jökul. Lögreglumenn sáu hann fara með þrjá matarbakka inn í sumarbústaðinn. Um kvöldmatarleytið yfirgefa þremenningarnir bústaðinn á tveimur bílum. Hluti lögreglumannanna veitir þeim eftirför en aðrir fara inn í bústaðinn og finna þar merki um umfangsmikla amfetamínframleiðslu. Um það leyti sem þremenningarnir keyra upp úr Hvalfjarðargöngunum ákveður lögreglan, með aðstoð sérsveitar, að láta til skarar skríða og handtekur þá. Þeir eru svo úrskurðaðir í gæsluvarðhald daginn eftir.

Þremenningarnir eru enn í gæsluvarðhaldi en mál allra þeirra sex sem koma að málinu verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 20. september.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi