Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veita enga syndaaflausn með sölu á upprunaábyrgðum

21.02.2020 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, hafa sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar Kveiks um sölu upprunaábyrgða raforku úr landi. Samorka fullyrðir að slíkt skaði ekki ímynd Íslands.

Eins og Kveikur fjallaði um, og hefur áður verið til umræðu, geta orkufyrirtæki fengið vottorð fyrir sinni grænu framleiðslu, sem kallast upprunaábyrgð. Nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er vottuð með upprunaábyrgðum, en þær geta gengið kaupum og sölum burtséð frá því hver fær í raun græna rafmagnið.

Því geta raforkunotendur í Evrópu keypt þennan græna upprunastimpil frá Íslandi og þannig sagst nota endurnýjanlega orku. Á móti má íslenska raforkufyrirtækið, sem seldi vottunina úr landi, ekki lengur selja orkuna sem endurnýjanlega á Íslandi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðarmála, sagði á Alþingi í gær að Landsvirkjun sé ekki skyldug til að selja upprunaábyrgðir raforku og skoða megi hvort fyrirtækið eigi að hætta því. Sala upprunaábyrgða sé umdeild og almenningur henni mótfallinn.

„Eru ekki að kaupa sér syndaaflausn“

Í tilkynningu Samorku segir að hlutfall  grænnar orku sé miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgi stöðugt. Upprunaábyrgðir eigi sinn þátt í þessari þróun. 

„Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland hætti þátttöku,“ segir Samorka. Framleiðsla endurnýjanlegrar orku hafi verið gerð eftirsóknarverðari með því að koma á fót upprunaábyrgðum sem sé staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á slíkum ábyrgðum hafi kaupandinn styrkt framleiðsluna. Tekjurnar af sölunni renna svo til framleiðenda orkunnar í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku, segir í tilkynningunni.

„Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Enn fremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum,“ segir Samorka, og orðar það sem svo að „kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn.“

Tekjurnar gætu náð fimm milljörðum á ári

Samorka bendir á að tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. 

„Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða.“

Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá. Þá segir Samorka að sala upprunaábyrgða skaði ekki ímynd Íslands.

„ Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti,“ segir í tilkynningu Samorku.