Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Veita 139 milljónum króna í styrki með áherslu á börn

18.02.2020 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Foreldrahús Vímulausrar æsku og Geðhjálp fá hæsta styrki, 14 milljónir króna hvort, frá félags- og barnamálaráðuneytinu. Ásmundur Einar Daðason ráðherra veitti styrki til frjálsra félagasamtaka í dag. Samtals nema styrkirnir ríflega 139 milljónum króna.

Alls fá 33 félög styrki af safnliðum fjárlaga í ár. Um árlega styrkveitingu er að ræða til félagasamtaka sem vinna á sviði félags- og velferðarmála. Styrkþegar þurfa að skila greinargerð um hvernig styrkjunum var varið í október og ráðuneytið getur óskað eftir upplýsingum um verkefnin hvenær sem er.

Sérstök áhersla á málefni barna

Sérstök áhersla var lögð á verkefni sem lúta að málefnum barna og fjölskyldna í ár. Frá þessu er sagt í frétt á vef Stjórnarráðsins í dag og haft eftir Ásmundi Einari að styrkirnir skapi tækifæri fyrir félagasamtökin.

Allir styrkirnir eru verkefnatengdir. Foreldrahús Vímulausrar æsku fær styrkinn til þess að sinna stuðningi og ráðgjöf til foreldra. Geðhjálp fær styrkinn til þess að veita geðhálp til betra lífs með áherslu á yngri notendur þjónustunnar.

„Frjáls félagasamtök eru afar mikilvæg samfélagi okkar og þróa oft nýjar og góðar hugmyndir eða útfærslur á eldri hugmyndum sem við tileinkum okkur öll í kjölfarið,“ sagði Ásmundur Einar við styrkveitinguna á veitingastaðnum Nauthóli í dag.

„Frjáls félagasamtök gegna oft burðarhlutverki í ýmsum málaflokkum sem varða heilsu og velferð fjölskyldna á Íslandi og nauðsynlegt er að viðurkenna það góða starf sem þar fer fram og veita því brautargengi,“ sagði Ásmundur enn fremur.

Samtals 139.282.000 krónur í styrki

Hér að neðan má sjá lista yfir styrkþegana í ár. Næst hæstu styrkina á eftir foreldrahúsi Vímulausrar æsku og Geðhjálp fá Drekaslóð, sem er þjónusta og fræðsla fyrir þolendur ofbeldis og efling faglegrar starfsemi (12,5 milljónir), og Landssamtökin Þroskahjálp (12 milljónir).

 • ADHD samtökin, 7.000.000 kr.
 • Átak – félag fólks með þroskahömlun – 1.500.000 kr.
 • Barnaheill – 9.000.000 kr.
 • Blindrafélagið – 7.000.000 kr.
 • Drekaslóð – 12.500.000 kr.
 • Dyngjan líknarfélag – 2.000.000 kr.
 • EAPN á Íslandi – 1.500.000 kr.
 • Einhverfusamtökin – 2.700.000 kr.
 • Félag einstæðra foreldra – 1.000.000 kr.
 • Félag heyrnarlausra – 9.000.000 kr.
 • Félag lesblindra á Íslandi – 1.000.000 kr.
 • Félag um foreldrajafnrétti – 500.000 kr.
 • Fjóla – félag fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu – 2.382.000 kr.
 • Fjölskylduhjálp Íslands – 1.200.000 kr.
 • Geðhjálp – 14.000.000 kr.
 • Hagsmunasamtök heimilanna – 1.500.000 kr.
 • Heyrnarhjálp – 5.000.000 kr.
 • Hjálparstarf kirkjunnar – 6.000.000 kr.
 • Hjálpræðisherinn í Reykjavík – 3.500.000 kr.
 • Íþróttasamband fatlaðra – 1.000.000 kr.
 • KFUM og KFUK – 3.300.000 kr.
 • Landssamtökin Þroskahjálp – 12.000.000 kr.
 • List án landamæra – 500.000 kr.
 • MND félagið – 200.000 kr.
 • Ratatam leikhópur – 500.000 kr.
 • Rauði krossinn á Íslandi – 4.000.000 kr.
 • Samtök um kvennaathvarf – 1.000.000 kr.
 • Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu – 1.000.000 kr.
 • Sorgarmiðstöð – 2.500.000 kr.
 • Stelpur rokka! – 2.000.000 kr.
 • Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra- 7.500.000 kr.
 • Systkinasmiðjan – 1.500.00 kr.
 • Vímulaus æska – foreldrahús – 14.000.000 kr.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV