Veiktust vegna myglu í atvinnuhúsnæði

21.06.2019 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Hópur fólks, sem veiktist vegna myglu og rakaskemmda í atvinnuhúsnæði á Akranesi, hefur ritað bréf til landlæknis þar sem þess er krafist að betur verði tekið á veikindum sem tengjast rakaskemmdum og myglu. Í bréfinu gagnrýnir hópurinn ráðaleysi starfsmanna í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að veikindum þeirra.

„Því miður er reynslan sú að langflestir heilbrigðisstarfsmenn hér á landi eru ýmist vantrúa á að um raunveruleg veikindi vegna rakaskemmda og myglu sé að ræða eða standa hreinlega ráðþrota gagnvart stöðunni“ segir í bréfinu. Flestir þeirra sem rita undir bréfið unnu í sama atvinnuhúsnæði á Akranesi en umrætt húsnæði hýsir fleiri en einn vinnustað. Húsnæðið sem vísað er til í bréfinu er á þremur hæðum og þeir sem veiktust unnu á ólíkum stöðum í byggingunni.

Fólkið segir að tilgangurinn með bréfaskrifunum sé ekki að stíga fram með ásakanir heldur kalla eftir betra samstarfi við heilbrigðisyfirvöld svo þeir sem kljást við veikindi vegna myglu og rakaskemmda geti náð heilsu á ný. Meðal annars telja þau að efla þurfi ráðgjöf og fræðslu til almennings um myglu og rakaskemmdir og þær afleiðingar sem þær geta haft á heilsufar fólks. Þeim finnst jafnframt brýnt að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgang að fræðslu um þær afleiðingar sem rakaskemmdir og mygla geta haft.  Auk þess þurfi að stuðla að menntun heilbrigðisstarfsfólks þannig að það þekki til þeirra aðferða sem nýtast við meðhöndlun á veikindum vegna þessa.

Í bréfinu segir jafnframt að „mikilvægt sé að umræðan fjalli ekki eingöngu um það fjárhagslega tjón húseigenda og atvinnurekenda sem verður af völdum myglusvepps í húseignum heldur einnig hið gríðarlega heilsufarstjón sem einstaklingar bera oft lengi og í mörgum tilfellum alla tíð.“ Myglan sé í raun hið nýja asbest, byggingarefni sem var mikið notað áður fyrr en hefur síðar komið í ljós að hefur heilsuspillandi áhrif. Fjölmörg lönd hafa bannað notkun þess.

Kolbrún Sandra Hreinsdóttir, einn bréfritaranna, veiktist eftir að hafa unnið í húsnæðinu og hún segir að einkenni hafi verið til staðar í meira en áratug. „Þetta eru meðal annars vöðvaverkir, verkir í liðum, flökurleiki, höfuðverkir og sjóntruflanir,“ segir Kolbrún en einkenni eru mismunandi eftir einstaklingum. Það var þó ekki fyrr en fyrir um ári síðan sem hún tengdi veikindin við húsnæðið. Hún hafði fram að því leitað ítrekað til læknis og það var leitað að ýmsu en aldrei fannst uppruni veikindanna. „Fyrir tveimur árum fór ég til læknis og var greind með vefjagigt, sem ég fékk lyf við en svo fór mér að versna,“ segir Kolbrún, þannig að greinilega var ekki um vefjagigt að ræða.

Í bréfinu kemur fram að það sé staðfest að í umræddu atvinnuhúsnæði eru rakaskemmdir og mygla og líklega hafi vatn lekið inn í húsið síðustu 20 ár. Sumir þeirra sem veiktust hafa þurft að fara í langvarandi veikindaleyfi á meðan aðrir fengu vinnuaðstöðu annars staðar í bænum eða hafa fengið að vinna að heiman. Þau séu samt heppin að vera hópur, því þannig geti þau sótt styrk hvert til annars og vakið athygli á málefninu.

„Það er mikilvægt að fá hjálp úr heilbrigðiskerfinu því það er ekki til neitt yfirlit yfir fjölda manns sem hefur veikst,“ segir Kolbrún og leggur áherslu á að þetta málefni þurfi að fá athygli. Umræðan þarf að opnast og þekking á málefninu að aukast. Það sé einnig mikilvægt að fólk sé meðvitað um einkennin. „Þetta rænir mann heilsunni,“ segir hún.

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi