Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veikir stöðu Katrínar ef þingflokkurinn neitar

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Það myndi veikja stöðu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri-grænna, ef þingflokkurinn hafnar því að fara í stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, eins og formaðurinn hefur lagt til, segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði. Velheppnað samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna í ríkisstjórn gæti hinsvegar breytt pólitíska landslaginu til frambúðar og styrkt stöðu beggja flokka.

„Hún hefur sagt það sjálf að hún vilji fara í þennan leiðangur að reyna að mynda þessa stjórn og telur að það sé hægt að ná góðum málefnasamningi fyrir VG. Hún er búin að gefa það út, formaðurinn, að hún vilji gera þetta,“ sagði Baldur um Katrínu Jakobsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Það væri mjög sérstakt ef eftir hádegi í dag að þingflokkurinn færi ekki í þessa vegferð sem hún er búin í raun að boða og telur að sé rétt. Það myndi veikja hennar stöðu all verulega, ekki bara innan flokksins heldur líka í komandi stjórnarmyndunarviðræðum við aðra flokka ef þingflokkurinn ætlar að hafna þessari beiðni hennar um að fá umboð til að setjast formlega að borðinu með þessum tveimur flokkum til að mynda stjórn.“

Gæti breytt pólitíska landslaginu

Baldur sagði að það hefði sett Framsóknarflokkinn í algjöra lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum gegnum tíðina að flokkarnir lengst til hægri og vinstri gátu ekki unnið saman í ríkisstjórn. Hann sagði að ef Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-græn nái saman um stjórnarsamstarf án þess að það leiði til mikilla innanflokksátaka geti það leitt til gjörbreytingar á landslagi íslenskra stjórnmála. „Ekki bara tímabundið heldur líka til lengri tíma litið út frá stjórnarmyndunum og gerir flokka þessara flokka miklu sterkari í framtíðinni að geta komið að stjórnarborðinu.“

Baldur sagði að andstaða flokkanna til hægri og vinstri við stjórnarsamstarf hefði styrkt stöðu miðjuflokkanna sem hafa getað unnið bæði til hægri og vinstri.

Draumur um sterka samhenta stjórn

Katrín hefur síðasta árið talað um að mynda samhenta sterka stjórn sem getur staðið af sér áföll, sagði Baldur. „Hún ítrekar þetta stöðugt og ég held að á nokkrum tímapunktum síðastliðið ár hafi hún gengið frá hugsanlegri stjórnarmyndun og jafnvel boði um að mynda minnihlutastjórn vegna þessa. Hún hefur ekki talið að sú stjórn sem hægt hefði verið að mynda væri nógu sterk og gæti hreinlega fallið við minnsta þrýsting. Þannig stjórn vill formaðurinn augljóslega ekki mynda,“ segir Baldur. Þess vegna geti stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum verið spennandi kostur að því leyti.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV