„Veikindalisti“ Grand Hótels brot á persónuverndarlögum

18.02.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Persónuvernd telur að Íslandshótel ehf, sem rekur Grand Hótel, hafi ekki tryggt með fullnægjandi hætti að yfirlit yfir veikindi starfsmanna kæmi ekki fyrir augu óviðkomandi. Forsvarsmenn hótelsins sögðu að yfirlitinu hefði verið stolið af skrifstofu yfirmanns og það hengt upp í framhaldinu. Starfsmennirnir sem kvörtuðu vísuðu því á bug og sögðu að tilteknir yfirmenn hefðu hengt listann upp.

Svokallaður veikindalisti Grand Hótels vakti nokkra athygli þegar kjarabarátta félagsmanna Eflingar og fyrirtækja í ferðaþjónustu stóð sem hæst. 

Á listanum voru birt nöfn starfsmanna og hversu lengi þeir höfðu verið frá vegna veikinda. „Þetta er glórulaust og grafalvarlegt mál. Þetta er bersýnilegt brot,“ sagði Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, í samtali við fréttastofu á sínum tíma.

ASÍ kvartaði til Persónuverndar fyrir hönd tveggja starfsmanna. Þeir  sögðu að rekstrarstjóri á hótelinu hefði hengt listann upp í rými sem væri aðgengilegt öllum starfsmönnum hótelsins.  Á honum hefði verið yfirlit yfir fjölda veikindafjarvista starfsmanna í eldhúsi á tilteknu tímabili.  Upplýsingar um fjarvistir frá vinnu vegna veikinda gætu vart talist annað en persónuupplýsingar sem varði líkamlegt eða andlegt heilbrigði. Starfsmennirnir vísuðu því jafnframt á bug að listanum hefði verið stolið af skrifstofu yfirmanns.

Íslandshótel sögðu skráningu á veikindum vera nauðsynlegur hluti af skyldum fyrirtækisins sem vinnuveitanda til að fyrirtækið gæti efnt ráðningarsamninga. Listinn hefði ekki verið hengdur upp með vitund eða vilja fyrirtækisins heldur verið tekinn ófrjálsri hendi af skrifstofu yfirmanns. Þannig hefði orðið öryggisbrestur og Persónuvernd verið tilkynnt um hann þann 27. febrúar. Verkalýðsfélagið Efling greindi frá listanum daginn áður.

Persónuvernd segir að umræddur listi hafi ekki eingöngu verið að finna í sérstöku tölvukerfi heldur einnig á útprentuðum lista. Og að sá listi hafi verið varðveittur á skrifstofu yfirmanns í eldhúsi. Íslandshótel hafi með þessu ekki tryggt nægilega vel að upplýsingar um veikindi starfsmanna kæmu ekki fyrir augu óviðkomandi aðila.  Var listinn því talinn vera brot á persónuverndarlögum.

Hótelinu var gert að setja verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og tryggja að þær reglur væru aðgengilegar öllum starfsmönnum hótelsins. Úrskurð Persónuverndar er hægt að lesa í heild sinni hér.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi