
Veiðileyfi mun dýrari í Færeyjum en hér
Tilgangur uppboða á fiskveiðikvótum, veiðiréttindum í færeyskri lögsögu er að sögn Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, að fá sem mestan afrakstur af fiskveiðiauðlindinni fyrir samfélagið í Færeyjum.
Á uppboði gærdagsins voru seld 3.500 tonn af makríl. Fimm útgerðir buðu í kvótann og var makríllinn seldur fyrir meðalverðið 3,82 krónur danskar á kíló. Það er jafnvirði um 69,76 íslenskra króna á kílóið. Þessu til samanburðar má nefna að á Íslandi er veiðigjald á kíló af makríl tvær krónur og 78 aurar fyrir fiskveiðiárið 2016/2017, samkvæmt nýlegri ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
Þá var seldur réttur til að veiða 2.000 tonn af síld á uppboðinu í Færeyjum í gær. Fjórar útgerðir buðu í síldina og fékkst meðalverð 3,58 krónur danskar á kílóið, jafnvirði rúmlega 64 íslenskra króna. Þessu til samanburðar má nefna að á Íslandi er veiðigjald á kíló af síld tvær kónur og 56 aurar fyrir fiskveiðiárið 2016/2017.