Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Veiddi þvottabjörn við Hafnir

20.03.2018 - 18:47
Þvottabjörn veiddist skammt frá Höfnum á Reykjanesi í gær en dýrið hafðist þar við í holu. Birgir Hauksson og hundurinn hans Tyson voru í allt öðrum erindagjörðum suður með sjó í gær þegar þvottabjörninn varð á vegi þeirra.

„Hann rakst á þetta hundurinn. Við vorum að leita að sandskeljum í Höfnum; hann hefur engan sérstakan áhuga á skeljatínslu þannig  að hann var bara í einhverju öðru á meðan. Ég hélt bara að hann væri búinn að finna mink eins og hann gerir oft en svo komu allt önnur hljóð úr holunni þegar ég fór að kanna málið,“ segir Birgir.

Hann hélt jafnvel að þarna væri köttur á ferð, áður en hið sanna kom í ljós. Birgir segir að einhver átök hafi verið milli hundsins Tysons og þvottabjarnarins, áður en hann greip sjálfur inn í.

„Já, já, þeir fóru í hvorn annan á tímabili.“

Ég geri ekki ráð fyrir að þú hafir veitt marga svona áður?
„Nei, þetta er sá fyrsti, sá fyrsti á Íslandi.“

Þótt þvottabirnir séu ekki algengir á Íslandi hafa þeir sést hér áður. Árið 1976 voru þrír slíkir fluttir í Sædýrasafnið í Hafnarfirði. Einn slapp en náðist síðan í fiskimjölsverksmiðjunni Lýsi í mjöl í Hafnarfirði, eins og DV greindi frá á sínum tíma. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgir og Tyson koma með eitthvað óvænt úr leiðangri.

„Í síðasta skeljaleiðangri fundum við ævaforna rostungstönn. Hún var heldur þægari en þetta kvikindi.“

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur segir að á sínum tíma hafi verið fluttir inn þvottabirnir til loðdýraræktar og hafi það staðið í  um það bil tuttugu ár, frá árinu 1930. Fyrir utan dýrin þrjú sem flutt voru inn fyrir Sædýrasafnið hafi eitt dýr fundist fyrir um tuttugu árum. Það kom með sendingu af nuddpottum og var dýrið drepið á hafnarbakkanum, af heilbrigðisástæðum eins og það var orðað. 

„Náttúrulegt útbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Ameríku, en þeir eru líka orðinir algengir sum staðar í Evrópu, eins og í Þýskalandi. Annaðhvort hefur þessu dýri verið smyglað inn eða það hefur laumað sér inn með einhverjum varningi eða í gámi; það er náttúrlega stutt í höfn og flugvöll þarna í Höfnunum,“ segir Kristinn Haukur. 

Hann segir þvottabirni ekki hættulega.

„Nei, þetta er rándýr og myndi verjast ef það væri á það sótt en þetta eru frekar glaðlynd og góðleg rándýr.“
En þau geta borið með sér sjúkdóma, eða hvað?
„Já, og það er þekkt að þau beri með sér hundaæði. En það verður bara að rannsaka þetta dýr og athuga hvort það hafi verið eitthvað slíkt í iðrum þess.“

Hann segir að samkvæmt villidýralögum séu þvottabirnir friðaðir. En svo séu lög um innflutning dýra þar sem kveðið sé á um að eyða þeim þegar í stað og brenna hræið. Hann segir mikilvægt að rannsaka þetta dýr betur.

„Hiklaust að gera það, það er ekki það oft sem slík dýr berast til landsins og um að gera að nýta það í þágu vísindanna,“ segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV