Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vegir víða einbreiðir á köflum

12.03.2020 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Vetrarfærð er í öllum landshlutum og verið er að vinna í að opna vegi sem hafa verið lokaðir frá því í gær. Mokstur getur tekið töluverðan tíma og margir vegir á Norðurlandi eru einbreiðir á köflum.

Mikil mokstursvinna er nú í gangi hjá Vegagerðinni og getur tekið einhvern tíma að ná að opna alla vegi. Aðalvegir eru þó flestir opnir.

Búið er að opna Öxnadalsheiðia en vegurinn er einbreiður á köflum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er heiðin vel fær, aðeins stuttir kaflar eru einbreiðir. Unnið er að breikkun vegarins. Þverárfjall og Vatnsskarðið er sömuleiðis einbreitt á köflum. Á Ólafsfjarðarmúla er líka unnið að því að opna veginn með blásurum og tækjum og talið að það taki töluverðan tíma.

Eins og veturinn '95

Þórólfur Jón Ingólfsson, hjá Vegagerðinni, var við mokstur á Tjörnesi þegar fréttastofa náði tali af honum um tíu leytið. Hann segir Tjörnesið hreinlega allt á kafi. Blásari, jarðýta og veghefill séu að vinna á sköflunum sem séu hærri en bílarnir. Hann segir þetta allt gerast í rólegheitunum. „Frá Húsavík í Lón er akkilesarhællinn núna og ætti að taka 2-3 tíma. Þetta er eins og árið '95, þriggja-fjögurra metra stál hérna“. Allt í kringum hann sé verið að moka og vegir á Norðausturlandi verði vonandi orðnir færir um hádegi.

Búið er að opna veginn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi en hlutar leiðarinnar eru einbreiðir og útmokstur stendur yfir. Ökumenn eru beðnir um að fara varlega og taka tillit til moksturstækja.

Mikil snjóflóðahætta er á utanverðum Tröllaskaga. Töluverð hætta er á Norðanverðum Vestfjörðum og Austfjörðum. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV