Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Veggjöld á helstu stofnæðar

11.09.2019 - 18:45
Mynd:  / 
Veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins verða tekin upp til að fjármagna samgönguframkvæmdir, þar með talið borgarlínu. Ríkið mun selja landið að Keldum til að fjármagna framkvæmdirnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samönguráðherra, kynnti, ásamt fulltrúa Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, framtíðarsýn ríkis og sveitarfélaga um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Fundinn sátu kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna.

Efni fundarins hefur ekki verið gert opinbert en samkvæmt heimildum fréttastofu verða um 125 milljarðar króna settir í hinar ýmsu framkvæmdir fram til ársins 2033. Þar vegur þyngst borgarlína sem áætlað er að kosti 70 milljarða króna. Framkvæmdir við fyrstu áfanga hennar hefjast árið 2021 og eru það leiðirnar frá Hlemmi upp í Ártún annars vegar og Hamraborg hins vegar. Borgarlína verður svo lögð í áföngum fram til ársins 2033.

Af öðrum framkvæmdum má nefna gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar sem eiga að hefjast 2021 en útfærslan liggur ekki fyrir. Byrjað verður að setja Miklubraut í stokk árið 2022 og þá er áætlað að hluti Sæbrautar fari einnig í stokk.

Ekki er minnst á Sundabraut í kynningunni en á fundinum kom fram að ekki verði farið í þá framkvæmd nema að um einkaframkvæmd verði að ræða.

Tæplega helmingur heildarpakkans, eða um 60 milljarðar króna, verður fjármagnaður með veggjöldum á helstu stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins á umræddu tímabili. Eru hugmyndir um að  gjöldin verði á bilinu tvö til sex hundruð krónur fyrir hverja ferð, þau verði hæst á háannatíma en lægri á öðrum tímum sólarhrings.   

Sveitarfélögin leggja til 15 milljarða króna og ríkið rest, um það bil 50 milljarða. Munu ríkið og sveitarfélögin stofna sérstakt félag utan um framkvæmdirnar og mun félagið hafa lántökuheimildir. 15 milljarðar af framlagi ríkisins munu koma af sölu Keldna sem renna inn í umrætt félag. Ef minna en 15 milljarðar fást fyrir landið mun ríkið bæta það sem upp á vantar.

Loks verða um sjö milljarðar króna settir í að bæta ljósastýringu á umferðarljósum, uppbygginu hjóla- og göngustíga, undirgöng og göngubrýr.