Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vegan með slátursvín á handleggnum

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Garðarsson

Vegan með slátursvín á handleggnum

26.10.2019 - 14:05

Höfundar

„Ég bjóst aldrei við því að taka þetta skref, ég var mikill kjötkarl, ég er með svín tattúverað á handlegginn á mér, slátursvín.“ Þetta segir Ágúst Garðarsson, kokkur hjá verkfræðistofunni Eflu. Hann gerðist vegan, nánast á einni nóttu, eftir að hafa byrjað að nota nýtt forrit sem reiknar út kolefnisspor réttanna sem hann eldar í mötuneyti Eflu.

Rætt er við Ágúst í fjórða þætti af Loftslagsþerapíunni. Hér má hlusta á allan þáttinn.

„Ég er alinn upp á sveitabæ af síðhippakommúnistum og hef alltaf verið með þetta samviskubit yfir því að við séum að fara illa með plánetuna án þess að gera neitt af viti í því. Síðustu ár hefur þetta sótt meira og meira á mig þannig að ég fór í að fá mér hybrid-bíl, reyndi að flokka meira rusl og svo núna síðasta vetur þegar ég var byrjaður að vinna hjá Eflu þá vorum við að þróa forrit fyrir kolefnisspor matar sem ég vinn með í mötuneytinu í Eflu og það tók ekki nema tvær vikur, af því að vinna með þetta forrit, setja inn rétti dagsins og sjá kolefnisspor kjöts og fisks, sérstaklega lambakjöt og nautakjöts að ég bara varð vegan.“

Í þættinum er loftslagsvandinn krufinn með hjálp siðfræði og trúarbragða; fjallað um neysluna, boðorðin tíu, alls konar skömm og bit, já og barneignir.

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Garðarsson
Ágúst Garðarsson.

Meðal viðmælenda eru verkfræðingur sem valdi rósavín fram yfir ný föt, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu og móðir sem á erfitt með að svara þegar dætur hennar spyrja hvers vegna þær megi ekki fara til útlanda.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Afneitararnir skilja umfang vandans

Menningarefni

Vill ekki láta kalla sig afneitunarsinna

Menningarefni

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt