Vegagerðin kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar

12.07.2019 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Vegagerðin ætlar að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar fari í umhverfismat. Breikkun vegarins eigi ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Fái hún að standa þýðir það að framkvæmdir tefjist.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. 

Þar segir að nauðsynlegt sé að fjalla frekar um ákvörðun Skipulagsstofnunar þar sem hún geti valdið vafa um hvernig fara eigi með aðrar sambærilegar framkvæmdir. Ákvörðunin sé ekki í samræmi við fyrri fordæmi og túlkun laga um mat á umhverfisáhrifum hvað snerti matsskyldu framkvæmda þegar verið sé að breikka veg úr tveggja akreina vegi í 2+1 veg. 

Vegagerðin segist munu flýta undirbúningi verkefnisins eins og kostur er samhliða kærunni, svo framkvæmdir tefjist sem allra minnst.

Bæjarráð á Akranesi hefur jafnframt falið Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í tilkynningu frá bæjarráði segir að íbúar á Akranesi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta þegar komi að umferðaröryggi, og því að framkvæmdinni sé hraðað, svo ekki verði fleiri slys á þessari leið. Ógilda eigi ákvörðun Skipulagsstofnunar þar sem hana skorti lagaheimild og rökstuðning. 

Tvö banaslys urðu á Vesturlandsvegi í fyrra og fleiri alvarleg umferðarslys hafa orðið á vegkaflanum sem á að breikka.

Til stendur að breikka um níu kílómetra kafla um Kjalarnes á milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarvel, þannig að tvær akreinar veðri í aðra áttina og ein í hina. Einnig verða lagðir hliðarvegir, hringtorg og göngu-, hjóla- og reiðstígar.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi