Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vegagerðin greiðir 76 milljónir vegna 18 km vegarkafla

03.01.2020 - 18:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matsnefnd eignarnámsbóta hefur gert Vegagerðinni að greiða 11 landeigendum og fyrirtækjum rúmar 76 milljónir vegna framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 kílómetra kafla. Hæsta upphæðin rennur til tveggja landeiganda í Árnanesi eða tæpar 24,5 milljónir. Það er þó mun lægri upphæð en landeigendurnir vildu fá því þeir kröfðu Vegagerðina um 610 milljónir.

Nýi vegurinn liggur frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi, eins og það er útskýrt í niðurstöðu matsnefndarinnar. 

Framkvæmdin er sögð vera liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi en vegurinn verður 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði. Þá verða nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá um 9 metrar að breidd. Nokkrir landeigendur hafa þegar samið við Vegagerðina og voru fyrstu samningarnir gerðir í maí 2017.

Stofnræktun fyrir kartöflur í hættu

Þótt Vegagerðinni hafi verið gert að greiða 76 milljónir voru upphæðirnar sem landeigendurnir fóru fram á mun hærri. 

Þannig fóru eigendur tveggja jarða í landi Dilksness fram á að Vegagerðinni yrði gert að greiða þeim tæpar 90 milljónir.  Þeir bentu á að í Dilksnesi væri rekin ferðaþjónusta sem hefði orð á sér fyrir kyrrð og fagurt útsýni.  Þetta yrði með öðrum hætti ef af þessari vegalagningu yrði. Ásýnd sjávarins myndi skaðast sem og aðgengi til sjávarins, meðal annars til að njóta fuglalífs og breytileika landsins af völdum sjávarfalla.  

Þá væri fyrirsjáanleg eyðilegging á atvinnuhagsmunum þeirra við kartöflurækt. Á jörðinni væri mikilvæg stofnræktun fyrir kartöflur og slík ræktun væri aðeins stunduð á þremur stöðum í landinu. Matsnefnd eignarnámsbóta taldi hæfilegar bætur vera 1,3 milljónir króna.

Setti sumarbústaðabyggð í uppnám

Annar eigandi landspildu í Dilksnesi krafðist þess að Vegagerðinni yrði gert að greiða honum rúmar níu milljónir. Hann benti á að þetta væri í annað sinn sem Vegagerðin tæki landspildu hjá honum eignarnámi í þágu vegalagningar með tilheyrandi óþægindum.  Hann hefði hafið uppbyggingu ferðaþjónustu á landareign sinni og fengið samþykki fyrir sjö sumarhúsum. Fjögur þeirra hefðu þegar verið seld á leigu. Staðsetning þjóðvegar væri ekki vænleg í sumarhúsabyggð og vegurinn myndi skilja frístundabyggðina frá fjölskrúðugu fuglalífi í Flóanum með tilheyrandi hljóð, sjón og loftmengun.  Matsnefndin taldi hæfilegar bætur vera sjö milljónir. 

Annar landeigandi í Dilksnesi fékk 1,2 milljónir og eigandi jarðarinnar Hóla rúma milljón en hvorugur þeirra lét málið til sín taka fyrir matsnefndinni.

Algjört næði frá öðru mannlífi

Eigendur Stórabóls kröfðust tæplega 88 milljónir króna. Þeir sögðu bæjarstæðið algjörlega einstakt þar sem íbúðarhús væri utan alfaraleiðar og í algjöru næði frá öðru mannlífi. Verðmæti landsins lægi ekki síst í staðsetningu þess, útsýni yfir ósnortinn fjörðinn og og til fjalla en nýr vegur myndi gera búsetu á landinu minna aðlaðandi. Nefndin taldi hæfilegar bætur vera 4,5 milljónir króna.

Hugmyndir um búrekstur í uppnámi

Þrír landeigendur í Hjarðarnesi kröfðust þess að Vegagerðinni yrði gert að greiða þeim samtals 138 milljónir. Þeir sögðu meðal annars að fyrirhugaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar hefðu sett hugmyndir þeirra í uppnám en þeir hafi ætlað að hefja þar búrekstur sem byggði á ferðamennsku, fræðslu og menningarstarfi.  Þeir hafi hvorki getað reist vandaða og hreindýrahelda girðingu sem væri nauðsynleg ræktun á landinu né getað endurgróðursett í skógræktarsvæði á landinu eftir gróðurelda 2010.  Þá hafi þeir keypt fasteignir á Höfn í stað þess að byggja á landinu vegna óvissu um nýtt vegstæði. Matsnefndin taldi 4,2 milljónir vera hæfilegar eignarnámsbætur.

Tveir aðrir landeigendur í Hjarðarnesi kröfðust eignarnámsbóta upp á 109 milljónir króna. Þeir bentu á að yrði nýr vegur að veruleika myndi bílaumferð liggja hringinn í kringum land jarðarinnar með tilheyrandi ónæði og að búseta á landinu yrði aldrei söm enda lægu verðmæti landsins ekki síst í þeim lífsgæðum að búa við ró, næði og útsýni yfir ósnortna náttúru.  Matsnefnd eignarnámsbóta taldi hæfilegar bætur 2,6 milljónir króna.

Einstök kartöfluræktun í uppnámi

Tveir landeigendur í Árnanesi kröfðust bóta upp á 610 milljónir króna. Þeir sögðu veginn hafa mikil áhrif á kartöflurækt landsins sem væri einstök. Um 15 til 20 prósent af allri kartöfluuppskeru landsins kæmi frá Hornafirði og þar legði jörðin til stærstan hlut. Þeir hefðu náð að skapa sér sérstöðu þar sem landsvæði þeirra væri oft fyrr tilbúið til ræktunar en önnur svæði á landinu. Yrði fyrirhugaður vegur að veruleika væru verulegur líkur á því að grunnvatnsstaðan hækkaði. Þótt það væri ekki nema um fáeina sentimetra myndi það hafa gríðarleg áhrif. Matsnefndin taldi hæfilegar bætur vera 24,5 milljónir eða 12,2 milljónir til hvors.

Annar landeigandi á svipuðum slóðum krafðist þess að Vegagerðin borgaði honum tæpar 45 milljónir.  Hann sagði að fyrirhugaður vegur myndi gera það að verkum að land sem hann ætti og hefði verið hugsað sem söluvara til útivistar og búsetu yrði vart nothæft vegna umferðarhávaða og sjónmengunar. Þetta væri staður sem kyrrð ríkti á.  Þá myndi vegurinn eyðileggja tekjumöguleika hans af dúntekju í í Hrafnsey. Matsnefndin taldi 3,4 milljónir vera hæfilegar bætur.

Óttuðust um kartöfluakrana 

Fyrirtækið Akurnesbú, sem er eigu nokkurra landeigenda og skráð á Höfn, krafðist 300 milljóna króna í eignarnámsbætur. Þar var meðal annars horft til áhrifa á landnotkun, meðal annars til kartöflu-og sauðfjárræktar. Á það var bent að landgæði landsvæðisins hefðu tryggt ábúendum þar forskot gagnvart kartöfluframleiðendum í öðrum landshlutum. Kartöfluakrarnir væru á bökkum Laxár og Hoffelsár og nálægð við vatnsfallið tryggði nægan raka og minnkaði líkur á næturfrosti. Var Vegagerðinni gert að greiða fyrirtækinu tæpar 24 milljónir í eignarnámsbætur.

Þá fékk fyrirtækið Miðskersbú rúmar 2,3 milljónir til að Vegagerðin gæti nýtt fyllingarefni úr námu í Hornafjarðarfljóti og burðalagsefni úr námi í Melsendahrauni í Skógey.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV