Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vegagerðin gefur út mokstursplan yfir jólin

20.12.2019 - 17:20
Innlent · jól · Samgöngumál · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Vegagerðin hefur gefið út áætlun um hvernig mokstri verður háttað á vegum landsins yfir jólahátíðina. Mokstur verður með hefðbundnum hætti á aðfangadag fram eftir degi. Síðdegiss verður dregið úr þjónustunni víða, en þó ekki á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum þar sem mokað verður eins og um helgi sé að ræða.

Á Höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut og austur á Selfoss verður mokstur með hefðbundnum hætti alla dagana. Á Suðurlandi verður einnig mokstur alla dagana, en þó með þeim takmörkunum að þjónustan verður líkt og um helgi sé að ræða. 

Þegar svokölluð helgarþjónusta er í gildi fer mokstur fram yfir styttra tímabil yfir daginn. 

Á Austurlandi,Norðurlandi og Vesturlandi verður vetrarþjónusta til ýmist 16 eða 17 á aðfangadag. Mokað verður á jóladag frá klukkan 10 á jóladagsmorgun til klukkan 16 síðdegiss. Á annan dag jóla verður svo mokað líkt og um helgardag sé að ræða. Á gamlársdag verður mokstur ef þurfa þykir fram eftir degi í áðurnefndum landshlutum til ýmist klukkan 16 eða 17. Á nýársdag verður svo þjónusta frá klukkan 10 að morgni til klukkan 18.

Hér fyrir neðan má sjá töflu frá Vegagerðinni um þjónustu á vegum landsins yfir jólahátíðina.

 

Mynd með færslu
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV