Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vefsíður stjórnarráðsins legið niðri í 13 tíma

28.11.2015 - 09:46
Vefsíða Stjórnarráðsins og þar með allra ráðuneyta liggja enn niðri eftir árás tölvuhakkara-samtakanna Anonymous í gærkvöld. Árásin er hluti af aðgerðum samtakanna sem nefnast Operation Killing Bay en það er aðgerðarhópurinn TeamRektlT sem stendur fyrir þeim.. Samtökin birtu myndband fyrir þremur dögum þar sem árásin var boðuð.

Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins er forsætisráðuneytið með vefsíðu stjórnarráðsins á sinni könnu. Ekki náðist í Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann forsætisráðherra, né Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, vegna málsins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu voru litlu jólin haldin í forsætisráðuneytinu í gærkvöld.

Mbl.is greindi frá því að samtökin ætli ekki eingöngu að ráðast á vefsíður stjórnarráðsins - samtökin hafa birt lista yfir hugsanleg skotmörk, þeirra á meðal eru vefsíða reðursafnsins, vefsíða HB Granda en stjórnaformaður félagsins er Kristján Loftson. Hann rekur einu hvalveiðibáta landsins sem veiða langreyði.

Samtökin birtu fimm skilaboð til ríkisstjórnarinnar á Twitter-síðu sinni. Þau fyrstu voru áskorun um að láta af hvalveiðum. 

Næstu skilaboð boðuð áframhaldandi aðgerðir - ríkisstjórnin ætti að stöðva hvalveiðar.

Þriðju skilaboðin voru afdráttarlaus - samtökin myndu ekki hætta þessum tangó þar til hvalveiðum yrði hætt.

Í fjórðu skilaboðunum kom fram að tekjurnar af hvalveiðum væru ekki þess virði.

Og í þeim fimmtu var ríkisstjórnin sögð of sein til að bregðast við árásinni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV