Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vefsíða KSÍ varð fyrir tölvuárás

11.06.2019 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Vefsíða Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, varð fyrir tölvuárás á ellefta tímanum í morgun. Vefurinn hefur verið flöktandi síðan og lá niðri í rúman hálftíma. Árásin er sambærileg þeirri sem Isavia varð fyrir í gær. Advania skoðar nú málið. Þetta staðfestir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við fréttastofu.

„Ég get staðfest að hún hefur verið á flökti i morgun, líklega síðan klukkan hálf ellefu, en hún virðist vera inni eins og er. Það er ljóst að það varð gerð einhvers konar árás á hana en Advania hefur verið að greina vandamálið fyrir okkur.“

Belgískur maður otaði uppþvottabursta að leikmönnum tyrkneska karlalandsliðsins í fótbolta við komu liðsins til Keflavíkur í gær. Atvikið fór öfugt ofan í Tyrki og hefur verið túlkað sem kynþáttaníð. Þá þótti leikmönnum vegabréfa- og tolleftirlit í Leifsstöð taka of langan tíma. Utanríkisráðuneytinu hefur borist formleg kvörtun frá tyrkneskum stjórnvöldum vegna málsins. 

Isavia varð í gær fyrir netárás, svokallaðri ddos-árás, sem var runnin undan rifjum tyrknesks hakkarahóps. Vefur Isavia lá niðri í rúmar tvær klukkustundir. Árásin lýsir sér í óeðlilegri umferð um vefinn þar sem þúsundir gervinotenda gera það að verkum að síðan hefur ekki undan heimsóknum og hrynur vegna álags. Klara segir að árásin á vef KSÍ í morgun sé sambærileg, svokölluð ddos-árás. 

Tyrkneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hópurinn beini spjótum sínum að íslenskum vefsíðum til að hefna fyrir móttökur tyrkneska liðsins. Á Twitter síðu hakkarahópsins má finna nokkrar færslur þar sem fjallað er um árásir á íslenskar síður. Þar var því haldið fram í gær að árásunum yrði haldið áfram.

Klara segist ekki geta staðfest að svo stöddu að tölvuárásin sé á vegum tyrkneskra hakkara. Hún segir árásina þó óvenjulega. 

„Það hefur verið vesen á vefnum sem tengist því að við erum með nýja heimasíðu en ég man ekki til þess að við höfum lent í sams konar vandamálum. Þetta er óvenjulegt,“ segir Klara. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV