Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veðurviðvaranir hafa gefist vel en auka álag

29.01.2020 - 21:03
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
„Það er búið að vera alveg gríðarlega mikið álag á veðurvaktina síðan í desember,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands. Álagið á vakt veðurfræðinga á Veðurstofu Íslands hefur aukist mjög mikið eftir að viðvörunarkerfið var tekið upp árið 2017.

Landinu er skipt upp í ellefu viðvörunarsvæði og það er töluverð vinna við að skrifa viðvaranir fyrir hvert og eitt, fimm daga fram í tímann. Áður fyrr voru bara gefnar viðvaranir fyrir allt landið ef úrkoma og vindur fóru yfir ákveðin mörk. Rauð viðvörun – efsta stig viðvörunarkerfisins – var gefin út í fyrsta sinn í desember.

„Þetta viðvaranakerfi var þróað í kjölfarið á því að viðvaranir komust ekki til skila. Til dæmis í veðrinu 10. desember 2012,“ segir Elín Björk. „Við sáum það í desember 2019 að viðbrögðin við því þegar við fórum á rautt voru bara mjög góð og fólk virðist taka eftir og fór að skilja hvað var um að vera.“

Nýverið tók Veðurstofan yfir veðurspágerð fyrir flugvöllinn í Vogum í Færeyjum og um leið fjölgar starfsmönnum á veðurvaktinni um einn.

„Þegar það koma svona veður dag eftir dag eftir dag þá auðvitað eykst álagið mjög mikið,“ segir Elín Björk. „Það er mikill kostur að vera þrjá veðurfræðinga á vakt það svona aðeins dreifir álaginu á milli þeirra þannig að við getum hreinlega hugsað betur um starfsfólkið okkar.“

Koma skilaboðum betur til almennings

Veðurviðvaranirnar hafa gefist vel enda telja veðurfræðingarnir þeir koma skilaboðum um vont veður betur til almennings. En það er ekki einfalt að gera viðvaranir því kröpp lægð í ágúst veldur líklega ekki jafn miklum usla og samskonar lægð í janúar.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt

„Við erum með ákveðna veðurþröskulda getum við sagt sem eru kannski ekki alveg niðurnjörvaðir í stein,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á vakt. „Það fer líka eftir árstíma, hvaða dagur vikunnar það, hvenær dags það er og hvað er búið að vera á undan. Það er ýmislegt sem þarf að meta í raun.“

Óvenjulegur janúar

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af lægðunum undanfarnar vikur. Þær hafa bókstaflega flækst fyrir hvor annarri á leið sinni yfir landið. Elín Björk segir eitt og annað sérstakt hafa einkennt lægðirnar.

„Sko, þær hafa verið mjög djúpar það hefur verið mjög merkilegt. Það hefur verið mikil háþrýstingur yfir Evrópu þannig að við höfum verið að sjá sko lægð eftir lægð sem fer undir 960 millibör og jafnvel undir 950. Og það er svolítið sérstakt og við höfum tekið sérstaklega eftir því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV

Óli Þór tekur í sama streng. Hann segir janúar hafa verið óvenjulegan að mörgu leyti. „Núna undanfarnar vikur hafa verið að myndast svokallaðar pólarlægðir, gjarnan í kjölfar lægðanna. Þannig að gamla lægðarmiðjan er hérna í kringum landið en úr lægðinni hafa myndast þrjár, fjórar og jafnvel fimm smálægðir. Það hafa tölvulíkönin átt í dálítið miklu basli við að negla hvar þær ætla að vera.“

Elín Björk segir það hins vegar ekki erfitt að átta sig á því hvert lægðirnar fara. Hið vandasama er að miðla því til fólks. „Við sjáum það ágætlega. Við erum með safn af líkönum sem hefur reynst okkur mjög vel. En hvernig á að koma því á framfæri að veðrið sé að fara að breytast á fjóra mismunandi vegu bara næsta sólarhringinn eða næstu tvo sólarhringa, þannig að fólk skilji og viti hvernig það á bregðast við, það getur verið snúið,“ segir Elín Björk.