Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Veðurklúbburinn á Dalvík spáir kulda

08.07.2019 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurklúbburinn á Dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík hélt sinn mánaðarlega veðurklúbbsfund í seinustu viku þar sem farið var yfir veðurfar komandi mánaðar. Fundarmenn ályktuðu sem svo að júlí verði heldur kaldur og að vestlægar áttir verði ríkjandi á svæðinu í kringum Dalvík.

Nokkrir heimilismenn á Dalbæ hittast alltaf fyrsta þriðjudag hvers mánaðar og gefa út spá fyrir komandi mánuð. Oftast eru þeir sammála um útlit veðurs en þó kemur fyrir að þeir eru það ekki. Spáin byggist ekki á hefðbundnu spálíkani heldur fyrst og fremst á stöðu tunglsins, draumförum og tilfinningum félagsmanna. Þá er einnig stuðst við hvernig veður hefur verið í gegnum tíðina. Aðallega er spáin gerð til gamans en félagar í veðurklúbbnum segja hana þó vera nokkuð áreiðanlega.

„Það er svona upp og ofan, en oft erum við ansi hittin á spána,“ segir Júlíus Baldursson sem stýrði fundinum.

Stefnir í vestanátt og kalda

Spáin er fyrst og fremst gerð fyrir Dalvík og nágrenni og aldrei lengur en einn mánuð fram í tímann. Klúbburinn gerir ráð fyrir kulda og vestlægum áttum á svæðinu næsta mánuðinn. Það ætti þó ekki að koma í veg fyrir heyskap bænda þó að það mætti gjarnan vera hlýrra.

Á fundi klúbbsins í byrjun júní var gert ráð fyrir að veður yrði gott frá miðjum júní, en góðviðrið kom heldur fyrr en þeir höfðu gert ráð fyrir.

„Já, við vorum ansi ánægð með það að spáin okkar hafi klikkað í seinasta mánuði, því við áttum ekki von á að það kæmi svona gott fyrr en eftir sautjánda, en svo gerði hann bara strax daginn eftir svona mikla glennu svo við fórum hérna út og bárum á skjólvegginn og höfðum bara gaman af því,“ segir Júlíus.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV