Vaxandi stuðningur við popúlistaflokka skapar hættu

09.01.2020 - 16:35
Mynd: RÚV / RÚV
Ósætti almennings með stjórnmálin er ástæða þess að bakslag hefur orðið í þróun lýðræðis og stjórnmála í heiminum. Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE og fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík.

Ingibjörg Sólrún er gestur Kastljóssins í kvöld. Þar segir hún frá störfum sínum fyrir ÖSE með aðsetur í Póllandi en hún sinnir meðal annars kosningaeftirliti hjá aðildarríkjum ÖSE. Hún segir að vaxandi stuðningur við popúlistaflokka í Evrópu sé áhyggjuefni. Hugmyndir um valddreifingu og málamyndanir séu á undanhaldi.

„Við erum að upplifa ákveðið bakslag núna og við erum að upplifa nýja hugmynd um lýðræðið sem felst í því að hinir sterku sem eru sigurvegararnir,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Þegar þú ert orðinn sigurvegari þá tekur þú valdið allt í stað þess að dreifa valdinu og deila valdinu og hugmyndir um að gera málamiðlanir hún er á undanhaldi.“

Mikil hætta á ferðum

„Það er aukin pólarisering,“ segir Ingibjörg Sólrún. „Hún kemur meðal annars með popúlismanum sem gerir út á pólariseringu. Sagan segir okkur að þar er mikil hætta á ferðum vegna þess að því meiri pólariseringu því meiri andúð sem við ölum á í samfélaginu þeim mun líklegra er að átök brjótist út.“

Ingibjörg Sólrún segist halda að ástæðan sé ósætti fólks við stjórnmálin og hvernig stjórnmálamenn fara með vald sitt. „Það er ósátt við það að menn segja eitt í kosningum og svo gerist eitthvað allt annað eftir kosningar. Þannig að það er ákveðið gap sem verður til en annað sem skiptir líka verulegu máli það er misskipting auðs og tækifæra sem er mjög vaxandi í veröldinni.“

Kastljós er á dagskrá í sjónvarpinu í kvöld að loknum fréttum. Ingibjörg Sólrún ræðir í þættinum einnig stjórnmálin hér heima eins og þau blasa við henni og þá siðferðiskreppu sem Alþingi hefur staðið frammi fyrir síðustu misserin en þar hefur ÖSE boðist til að veita aðstoð.