Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vaxandi stéttamunur birtist í skólunum

16.02.2018 - 13:12
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Aðgreining út frá stétt og þjóðfélagslegri stöðu hefur lítið verið skoðuð á Íslandi. Það segir einhverja sögu, segir Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands. „Erum við kannski ennþá að halda í þá von að við séum stéttlaust samfélag"? spurði hún á Morgunvaktinni í samtali um stöðu íslenska skólakerfisins. Berglind Rós segir að ekki megi taka niðurstöður PISA-mælinga of hátíðlega eða taka um of mið af þeim.

Berglind Rós sagði að vísbendingar væru um það í rannsóknum hennar og Auðar Magndísar Auðardóttur, doktorsnema, að misskipting milli skólahverfa hafi aukist mjög mikið síðustu 20 árin. Endanlegar tölur liggja ekki fyrir, en gróflega má áætla að í tveimur eða þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu sé meira en helmingur nemenda börn fólks sem tilheyri þeim 20% sem ríkastir eru á Íslandi. Í öðrum skólum er ekki að finna börn sem eiga foreldra úr þessum hópi auðugustu Íslendinganna. Eins er með menntunarstigið: Á meðan nærri 80% nemenda í sumum skólum eiga háskólamenntað foreldri er hlutfallið um eða innan við 20% í öðrum skólum.

„Við tölum aldrei um þetta. Við viljum ekki horfast í augu við þetta. Þetta hefur líka verið að gerast án þess að við höfum mælt það eða fylgst með því,"

sagði Berglind Rós Magnúsdóttir á Morgunvaktinni.

Lesskilningur er sagður lakari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, brottfall meira og stærri gjá milli nemenda af innlendum og erlendum uppruna. En hugsanlega tökum við þessar niðurstöður of bókstaflega - meltum þær hráar. „Við höfum látið þessa grófu og ónákvæmu mælikvarða í PISA duga til að mæla stéttarstöðu. En flestar þjóðir fylgist með því hvernig aðgreining birtist milli skólahverfa," sagði Berglind Rós Magnúsdóttir. Hún og aðrir íslenskir fræðimenn eru nú að vinna úr gögnum sem Hagstofan og aðrir hafa tiltæk til að fá skýrari mynd af ólíkri stöðu nemenda - eftir stétt og félagslegum bakgrunni. Markmiðið er að greina breytingar sem orðið hafa síðustu 20 árin. Og breytingarnar á samfélaginu hafa sannarlega verið miklar. Útlendingum hefur fjölgað mjög og við erum stödd í miðri alþjóðavæðingu - og börnin eru örugglega komin þar lengra á veg en þeir fullorðnu. Þetta hefur áhrif á stöðu móðurmáls og lesskilning. Íslenskir og finnski nemendur koma lakar út úr prófunum á þekkingu í eigin tungumáli og má að einhverju leyti skýra það með því að móðurmál þeirra séu erfiðari viðfangs en danska, norska og sænska. Á þetta benti Berglind Rós á Morgunvaktinni og minnti um leið á að Íslendingar hafi ekki mikla reynslu af móttöku útlendinga og þurfi vafalaust að bæta sig á því sviði. En það er mikilvægt að taka PISA-niðurstöðum með fyrirvara: 

„Eigum við að láta fjölþjóðlegar stofnanir ákveða námskrárnar okkar? Það hefur ekki farið fram umræða um það hvort það sé besta námskráin." 

Berglind Rós segir að það hafi fram ákveðin miðstýringarárátta af hálfu alþjóðastofnana. Við þurfum að mæta því með gagnrýnum hætti. Það sé ekki til bóta að fyllast angist og ótta vegna niðurstaðna í þessum alþjóðlegu mælingum. Alþjóðavæðingin, með nánari tengslum við umheiminn, enski málheimurinn sem þrengir að okkur, stafræna byltingin og öll netnotkunin. Allt hefur þetta áhrif á stöðu og getu nemenda. Berglind Rós segir að Íslendingar séu nýjungagjarnir og mjög opnir fyrir möguleikum tækninnar. Við sláum flest met í tengingum við hinn alþjóðlega stafræna heim. Annars staðar sé meira rætt um að verja ungu kynslóðina fyrir ytri áhrifum. En Berglind Rós bendir á að ekki megi gera of mikið úr muninum á íslenskum nemendum og jafnöldrum annars staðar á Norðurlöndum. Í stærðfræði sé munurinn á íslenskum nemendum annars vegar og þeim finnsku og dönsku aðeins 20 stig af 500, eða innan við 5%. Fleira þurfi að mæla. Við stöndum t.d. miklu betur en flestir varðandi ýmsa sköpunarþætti, sem séu mjög mikilvægir. Árangur Íslendinga á sviði sköpunar hafi vakið alþjóðlega athygli. En það eru hættumerki á lofti. Hér var greiður aðgangur að tónlistarnámi og tómstundastarfi en nú hefur stéttaskipting aukist það mikið að þeir fátæku njóta síður en hinir efnameiri þessara gæða. Sköpunarmenntir þarf í mörgum tilvikum að sækja utan hins hefðbundna skóla og þær verða því aðeins aðgengilegar börnum þeirra efnameiri.

„Það er miklu erfiðara fyrir lægri stéttir að taka þátt í þessu því þetta er orðið svo dýrt. það er engin stofnun að skoða þetta sérstaklega. Svona þættir ýta undir frekari stéttaskiptingu, hamla fólki sem býr við skertan kost. það finnst mér mjög alvarlegt."

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður