Vatnsstígsreitur tekur stakkaskiptum

Mynd: RÚV/Jón Þór / RÚV
Mikil uppbygging er fyrirhuguð á svokölluðum Vatnsstígsreit á mótum Laugavegar og Vatnsstígs í miðborg Reykjavíkur. Gömul hús víkja fyrir allt að 4.000 fermetra nýbyggingum og önnur fá andlitslyftingu. Gert er ráð fyrir allt að 56 hótelíbúðum.

Mikið hefur verið byggt á og í kringum Laugaveg undanfarin ár. Byggt hefur verið upp á svæðum eins og Brynjureit, Hljómalindarreit og Frakkastígsreit.   Næsta stóra uppbyggingarverkefni af þessum toga, og jafnframt það síðasta, verður hér á horni Laugavegs og Vatnsstígs.

Borgarráð hefur samþykkt að auglýsa deiliskipulag fyrir reitinn sem gerir ráð umtalsverðu byggingamagni fyrir íbúðir, gistirými og aðra þjónustu. Um fjögur þúsund fermetrar verða byggðir ofanjarðar og 600 fermetrar verða endurgerðir í þeim byggingum sem eftir standa. Zeppelin arkítektar hanna Vatnsstígsreitinn.

Vatnsstígur 4 verður rifinn

Húsin sem standa við Laugaveg fá andlitslyftingu og verða hönnuð þannig að þau falli að götumyndinni. Húsið við Laugaveg 33, sem er friðað verður gert upp í samræmi við upprunalega gerð. Þar verður gististarfsemi og þjónusta á jarðhæð.

Byggingarnar við Laugaveg 35 og 37 verða einnig endurgerðar og einni hæð bætt á hvort hús, auk þess sem timburhúsið verður lengt til austurs.

Mest bætist við Vatnsstígsmegin. Vatnsstígur 4 verður rifinn, en það húsnæði eyðilagðist í eldsvoða fyrir um áratug. Þar verða tíu til tólf íbúðir, þrjár hæðir auk bílakjallara og rishæðar með svokölluðu mansardþaki. Laugavegur 33a víkur einnig fyrir nýbyggingum.

Breyting til batnaðar

Laugavegur 33b verður gerður upp og tengdur við Laugaveg 33 með litlum glerbyggingum. Húsið er sérstakt fyrir þær sakir að þakið er steinsteypt. Í þessum húsum verður hótelstarfsemi, en gert er ráð fyrir allt að 56 gistiíbúðum á svæðinu. Orri Árnason, arkítekt hjá Zeppelin arkítektum, býst við að framkvæmdirnar verði mikil lyftistöng fyrir svæðið.

„Já, það verður mjög mikil breyting, til batnaðar. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það. Þetta verður allt miklu snyrtilegra og vonandi verður meira og betra mannlíf sem tengist þessu. Við fáum tvö ný torg eða lítil torg og það verður ábyggilega eitthvað skemmtilegt sem gerist í kringum þau.“

Enn á eftir að samþykkja deiliskipulagið en Orri vonast til að framkvæmdir geti hafist snemma næsta sumar.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi