Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vatnsnesvegur helsta verkefni sveitarstjórnar

28.08.2019 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Helsta verkefni sveitarstjórnar Húnaþings vestra næstu vikur verður að koma uppbyggingu Vatnsnesvegar á samgönguaætlun. Oddvitinn segir veginn illfæran eftir rigningar síðustu daga og foreldrar kvíði því að senda börnin í skólabíl eftir holóttum veginum.

Vatnsnesvegur er 70 kílómetra malarvegur frá Hvammstanga og út fyrir Vatnsnes. Vegurinn hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár þar sem fjallað hefur verið um slæmt ástand hans og ítrekuð umferðarslys.

Segir veginn hálf ófæran eftir rigningar undanfarið

Langflestir keyra fyrir Vatnsnes til að skoða Hvítserk en áætlað er að þangað komi um 150 þúsund ferðamenn ár hvert. Þá aka íbúar á Vatnsnesi þennan veg daglega, auk þess sem við hann eru staðir til selaskoðunar. „Það var náttútulega þurrt í sumar og þannig hélt vegurinn sér sæmilega en núna strax og byrjaði að rigna í haust þá er hann bara orðinn ófær aftur,“ segir Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti Húnaþings vestra. „Strax og er komin bleyta og þetta mikli umferð á honum þá verður hann ekkert nema holur.“ 

Vegurinn efstur á blaði á öllum fundum á næstunni

Vatnsnesvegur tilheyrir tengivegum og eina fjármagn til viðhalds kemur úr sameiginlegum tengivegapotti. Þorleifur segir allt burðarlag í veginum löngu ónýtt og það sé orðið tilgangslaust að reyna að halda honum við án þess að ráðast í miklar aðgerðir. Og það vilji sveitarstjórnin sjá gerast. Að uppbygging Vatnsnesvegar komist á samgönguáætlun og sérstöku fjármagni verði veitt í gerð nýs vegar. „Það er kannski vona á því núna í haust að við náum einhverjum árangri. Það er að byrja vinnan aftur núna fyrir næstu samgönguáætlun við að reyna að koma því þar inn. Þetta verður ábyggilega efst á blaði á öllum fundum sem við förum á að minnast á þennan ágæta veg.“

Foreldrar kvíði því að senda börnin í skólabíl

Í fyrravetur vildi fólk á Vatnsnesi fá að kenna börnum sínum heima vegna ástands vegarins, en skólabörnum líður illa og verða bílveik við það að hossast í skólabíl á veginum tvo tíma á dag. Og Þorleifur segir að nú sé skólaakstur að hefjast á ný og foreldrar kvíði vetrinum. „Þetta er bara mjög vont mál og á bara eftir að versna ef ekkert er gert.“

Hér er myndband sem Sigrún Birna Gunnarsdóttir tók á akstri um veg 711 fyrir Vatnsnes núna í ágúst.