Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vatnsból á Suðurlandi farin að láta á sjá

19.08.2019 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Nokkur sveitarfélög á Suðurlandi hafa undanfarið hvatt íbúa til að fara sparlega með vatn. Eftir langvarandi þurrka hefur lækkað mikið í vatnsbólum þótt hvergi hafi orðið vatnslaust í stórum stíl.

Lítið sem ekkert hefur rignt á Suður- og Vesturlandi í mestallt sumar og er jörð því víða orðin mjög þurr. Fyrir helgi sendi vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps frá sér tilkynningu og bað íbúa um að stilla allri vökvun og almennri vatnsnotkun í hóf.

Lækkar í vatnsbólum þó ekki sé vatnsskortur

„Gunnvantsstaðan hefur náttúrulega farið lækkandi og við sjáum þess einnig merki í vatnsbólum,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Ásahreppi. Því sé afar mikilvægt að fólk hugsi sig vel um þegar það skrúfar frá vatninu og passi sérstaklega að vatn renni ekki ónotað í stórum stíl. „Það er okkur mikilvægt að við höldum vatni í dreifikerfinu. Það er kannsi ekki orðinn vatnsskortur, en það kemur á köflum að einstaka bæir sem standa hátt hafa misst vatn út af þrýstingsleysi. En vatnsbólin eru ekki tóm.“

Ekki láta vatnið renna að óþörfu

Og staðan er svipuð í fleiri sveitarfélögum á Suðurlandi. Þannig hefur lækkað í vatnsbólum bæði í Hrunamannahreppi og Grímsness- og Grafningshreppi og íbúarnir verið hvattir til að spara vatn eins og þeir geta. Þá eru mjög margir sumarbústaðir á Suðurlandi og eigendur þeirra eða leigjendur eru sérstaklega beðnir um að vera ekki að vökva að óþörfu. „Það er hægt að fara sparlega og hafa vaðið fyrir neðan sig. Allavega ekki að vera að láta vatnið renna án þess að hafa það alveg undir stöðugu eftirliti og ekki nýta það meira en nauðsyn krefur. Á meðan við erum í þessarri stöðu,“ segir Valtýr.