Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vatnajökulsþjóðgarður á heimsminjaskrá

05.07.2019 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Heimsminjaráðstefna UNESCO, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, samþykkti rétt í þessu umsókn Íslands um að bæta Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá stofnunarinnar.

Staðir sem teknir eru inn á heimsminjaskrá UNESCO teljast sérstaklega merkilegir frá menningarlegu eða náttúrufræðilegu sjónarmiði og eru taldir hluti af menningararfi mannkyns. Á heimsminjaskrá eru nú 845 staðir vegna menningarlegs mikilvægis og 209 vegna einstakrar náttúru og 38 staðir sem falla í báða flokkana. Vatnajökulsþjóðgarður verður þriðji staðurinn á Íslandi til að komast á heimsminjaskrá UNESCO og sá fyrsti sem þangað kemst vegna einstakrar náttúru. Fyrir eru Þingvellir í flokki menningarverðmæta og Surtsey vegna einstakra jarðfræðilegra aðstæðna.

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Þjóðgarðurinn spannar rúm 14% af flatarmáli Íslands (14.701 ferkílómetrar í júlí 2019) og er á meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fagnar niðurstöðunni á Facebook.

Fréttin hefur verið uppfærð