Varnarræða fyrir melankólíuna

Mynd:  / 

Varnarræða fyrir melankólíuna

04.06.2019 - 14:20

Höfundar

„Melankólían er ekki bara huggun, heldur er hún sjálf leiðarstjarnan að því takmarki að yfirstíga hlutskipti okkar. Melankólía hefur ekkert með heimshryggð eða sjálfsvorkunn að gera, og hún er heldur ekkert skyld hugtakinu svartagallsraus, sem þó á rót sína í frumhugmyndunum um melankólíu,“ segir Halldór Armand í nýjum pistli sínum um fegurð í depurðinni.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Ég hef um hríð reynt að finna reisn í einmanaleika mínum. Það hefur reynst mér erfitt.“ Svona hljómar sjötugasta og fyrsta fullyrðingin í bókinni Bluets eftir Maggie Nelson, sem kom út 2009. Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bókin um litinn bláan; þráhyggjur, ástríður, hugmyndir og rannsóknir höfundarins sem allar eiga rót sína í þessum lit himinsins, lit hafsins og lit depurðarinnar. Bókin er sett upp sem röð tölusettra fullyrðinga í anda heimspekingsins Ludwigs Wittgenstein, sem bersýnilega hefur haft áhrif á Nelson, enda vitnar hún í skrif hans bæði í þessari bók og öðrum verkum sínum.  

Sjötugasta og fimmta fullyrðingin er svohljóðandi: „Ég hef að mestu leyti fylgst með sjálfri mér verða að þjóni depurðarinnar. Ég er ennþá að leita að fegurðinni í því.“ Og lesandinn hugsar: Og um leið er þessi leit þín sjálf fegurðin í augum annarra.

Bókin Bluets væri ein og sér efni í heilan pistil. Þetta er hrífandi bók, ekki síst vegna þess að hún er allt í senn á afar háu vitsmunalegu plani, mjög tilfinninganæm, falleg, sársaukafull og mennskan sem hún opinberar er hrá og erfið. Höfundi tekst það sem ég geri ráð fyrir að hafi verið ætlunarverk hennar – að skrifa djúpbláa bók um litinn bláan, kápan er vitaskuld blá, en textinn og setningarnar eru það líka, og svífa friðsamlega niður blaðsíðurnar eins og blá rigning á sunnudegi í ágúst. 

Fullyrðing 199 er gott dæmi. Hún er rökrétt framhald af fullyrðingunni þar á undan sem fjallar um gleymsku. Hér er fullyrðing 199 úr bókinni Bluets í minni þýðingu: „Því þráin eftir því að gleyma því hversu mikið þú elskaðir einhvern – og síðan að gleyma því raunverulega – getur stundum verið eins og að slátra fallegum fugli, sem kaus, fyrir hvorki meira né minna en guðs náð, að gera sér heimili í hjarta þínu. Ég hef heyrt að þessum sársauka megi umbreyta, svo að segja, með því að „sætta sig við hverfulleika allra hluta“. Slík sátt gerir mig ringlaða: stundum virðist hún vera viljaverk, en á öðrum augnablikum uppgjöf. Mér líður oft eins og ég vaggi þarna á milli (sjóveiki).“

Mynd með færslu
 Mynd: Public domain pictures
Höfum við ekki öll séð þennan fallega fugl sem gerði sér heimili í hjarta okkar?

Ófullnægjan lyftiduft í hagkerfinu

Ó, þessi fugl. Höfum við ekki öll séð þennan fallega fugl sem gerði sér heimili í hjarta okkar? Ég gæti talað um þessa fullyrðingu höfundar fram að kvöldfréttum, en látum staðar numið hér. Ástæða þess að ég sá ástæðu til þess að tala um þessa bók er sú að hún er svo melankólísk. Depurð hennar er ómótstæðilega fögur. Og þótt á síðustu árum hafi óneitanlega átt sér stað mikil vakning hvað varðar andlega líðan fólks og umræðu um hana, þá lifum við ennþá í heimi sem lætur eins og mannleg depurð – melankólían, eða eitthvað sem við getum kallað skort á lífsgleði eða hamingju – sé vandamál sem þarf nauðsynlega að laga, með úrræðum sem við þekkjum öll, pillu, eða Netflix-glápi, eða sálfræðimeðferð eða líkamsræktarkorti eða einhverjum fatnaði og svo framvegis.

Það þekkja þetta allir. Undirliggjandi hugmyndafræðin er sú að við eigum að vera hamingjusöm, það sé náttúrulegt ástand hverrar lifandi manneskju að fara valhoppandi af kæti fram úr rúminu á hverjum morgni, mæta skælbrosandi til vinnu eða skóla, og hvers kyns depurð eða leiði eða melankólía, jafnvel þunglyndi, sé afbrigðilegt. Þessi skilaboð eiga vitaskuld rót sína í þeirri staðreynd að svona er hægt að selja okkur drasl sem við höfum enga þörf fyrir né áhuga á. Ófullnægjan er lyftiduftið í vestrænu hagkerfi.

Saga melankólíunnar fer kannski ekki hátt í dag, en hún nær, eins og meira og minna öll stór viðfangsefni, aftur til Forn-Grikkja. Í augum Aristótelesar og félaga var melankólían karaktereinkenni sem hlaust af svörtu galli í miltanu. Melankólíkerinn undi sér best á haustin, hin dapra manneskja var fædd undir hringjum Satúrnusar, existensíalískustu plánetunni. Í texta sem hafður er eftir Aristótelesi, þótt það sé að vísu umdeilt hvort hann sé höfundurinn, segir: „Hvers vegna er það svo að allar manneskjur sem eru framúrskarandi í heimspeki, stjórnvisku, ljóðlist eða listum, eru melankólískar, eða þjást af sjúkdómum sem rekja má til svarta gallsins?“

Þessi goðsögn um listamanninn sem er lamaður af eigin hugsun lifði góðu lífi gegnum miðaldir, þar sem melankólían var síendurtekið umfjöllunarefni. Þekktasta birtingarmynd hennar er vafalaust málverkið Melankólía I eftir Albrecht Duhrer frá 1514 þar sem við sjáum vængjaðan snilling í þungum þönkum sem er umkringdur tímaglasi og öðrum hlutum sem tengjast listrænni sköpun og vitsmunalegri ástríðu. Þessi melankólíska vera er lömuð af hugsun, en um leið er það þessi hugsun sem gefur henni vængi frammi fyrir öllu því sem máli skiptir. Þetta er falleg framsetning á mannlegri tilvist, en er hún ekki um leið bara svolítið raunsönn?

Mynd með færslu
Melancholia I eftir Albrecht Dürer - vængjaður snillingur í þungum þönkum

Depurð sem huggun og leiðarstjarna 

Ætlun mín er svo sannarlega ekki að fegra kvalir þunglyndis. En það er alveg ástæða til þess að grípa til varna fyrir depurðina, syngja lítinn söng fyrir melankólíuna, sem er svo ríkulegur og að mörgu leyti sjálfsagður hluti af mannlegri tilvist. Ég ætla ekki að ganga svo langt að taka undir þá svartagallsspeki að „meðvitundin sé martröð náttúrunnar“, það er að segja, að fyrir atbeina meðvitundarinnar í höfði manna öðlist náttúran í fyrsta skipti skilning á sjálfri sér, og það sem hún sjái, sé martröð, miskunnarlaus og ógnvekjandi tilvera á hnetti sem þeytist hring eftir hring kringum sólina í algjöru tilgangsleysi. 

En það kann að vera að það sé fullkomlega sjálfsagt að fórnin sem við færum fyrir getuna til þess að geta virt fyrir okkur sköpunarverkið í allri sinni ógnvekjandi dýrð og velt vöngum yfir ráðgátum þess, sé melankólía, já, depurð. Það sé gjöf að geta staðið frammi fyrir stærstu spurningunum og tekist á við þær, en depurðin sem því fylgir sé eins óhjákvæmileg og brunatilfinningin í munninum eftir að hafa borðað bragðsterkan mat. Þannig sé melankólían ástand sem kannski þarf ekki endilega alltaf að reyna að vinna bug á, heldur eitthvað sem má finna töluverða dýpt og merkingu í og jafnvel njóta. Joni Mitchell syngur í laginu Hejira, sem heyrðist hér áður en ég tók til máls: 

Það er huggun í melankólíunni,
þegar þörfin til útskýringa er engin,
Hún er jafnsjálfsögð og veðrið
undir þessum þunga himni í dag.

Já, huggun, segirðu Joni, aha, mhm, jú, vissulega, en ég held ég myndi jafnvel ganga lengra. Melankólían er ekki bara huggun, heldur er hún sjálf leiðarstjarnan að því takmarki að yfirstíga hlutskipti okkar. Melankólía hefur ekkert með heimshryggð eða sjálfsvorkunn að gera, og hún er heldur ekkert skyld hugtakinu svartagallsraus, sem þó á rót sína í frumhugmyndunum um melankólíu. Nei, melankólían er það ástand sem hlýst af því að snúa sér viljandi að – en ekki frá – þeirri yfirgengilegu ráðgátu sem tilvist okkar er. Hún hlýst af því að stara í augu þessarar ráðgátu, finna kaldan andardrátt hennar, og bjóða hann velkominn. Hún er skuggi sjálfrar lífsfyllingarinnar. Hún er það sem lyftir bláum vængjunum á baki þínu. Ekki snúa sér undan, ekki leiða hugann að einhverju þægilegra, ekki leita algleymis eða undankomu. 

Lykillinn að því að sjá melankólíu í þessu ljósi, að mínu mati hennar rétta ljósi, er að átta sig á því að hugmyndin um hamingju sem náttúrulegt ástand er lygi – augljós lygi. Þjáning, depurð og sársauki eru alveg jafnmikill hluti af lífinu og gleði, sæla og hamingja. Hamingja okkar hangir alltaf á bláþræði, það er að segja, hún er háð svo svakalega mörgum þáttum sem við höfum enga stjórn á. Þeir dagar sem sólin skín á okkur eru guðsgjafir, dýrð að ofan, og vegurinn til þakklætis fyrir þessi verðmætu augnablik liggur um meðvitundina um hverfulleika þeirra, vitneskjuna um að þau eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin.

Af sömu ástæðu er kannski ekki alltaf heppilegast að óska dapurri eða jafnvel þunglyndri manneskju bata, eða að henni líði betur, þótt slíkar velfarnaðaróskir séu alltaf bornar fram af hlýhug, vegna þess að það kann að vera að þessi manneskja sé einfaldlega svona, að verkefni hennar sé eilífðarverkefni, og þetta sé ekki spurning um að ná bata, heldur að lifa með sjálfum sér og voninni um að hægt sé að breiða úr þessum bláu vængjum og horfa til himins.