Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varnarmálaráðuneytið skoðar olíu á Seyðisfirði

14.10.2019 - 15:08
DCIM\100GOPRO\GOPR5596.
 Mynd: Hlynur Vestmar Oddsson - RÚV
Sérfræðingar frá breska varnarmálaráðuneytinu eru væntanlegir til Seyðisfjarðar vegna olíuleka úr breska tankskipinu El Grillo. Því var sökkt í firðinum í seinni heimsstyrjöld en olía úr skipinu mengar fjörðinn og drepur fugla. Til greina kemur að kafarar landhelgisgæslunnar skoði flakið og metið verður hvort hægt sé að grípa til bráðaaðgerða.

Þrátt fyrir tvær hreinsunaraðgerðir, síðast árið 2001, lekur enn olía úr El Grillo. Í sumar voru birtar myndir af olíubrák, olíublautum æðarfugli og fullyrt að ungar hefðu drepist í stórum stíl. Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri segir að fulltrúar sveitarfélagsins og Seyðisfjarðarhafnar hafi fundað með Umhverfisstofnun, ráðuneytinu og Landhelgisgæslunni. „Það er á teikniborðinu að landhelgisgæslan komi og sendi kafara niður og skoði hvað er hægt að gera til þessa að gera til að bregðast við strax. Og hvað þá þyrfti að gera til lengri tíma litið,“ segir Aðalheiður.

Enn óljóst hver borgi fyrir mögulegar aðgerðir

Bæjaryfirvöld á Seyðisfirði settu sig í samband við breska sendiráðið, óskuðu eftir aðstoð og úr varð að í næstu viku koma tveir sérfræðingar á vegum breska varnarmálaráðuneytisins. Stálið í El Grillo var þykkt enda skipið gert til siglinga í hafís. Því er talið ólíklegt að göt séu komin á skrokkinn vegna tæringar. „Þegar var hreinsað upp úr skipinu 2001 þá voru gerð göt á tanka til að ná upp olíunni og þeim var síðan lokað og það gæti verið að suðurnar væru farnar að gefa sig, sem dæmi. Fyrsta skrefið er að rannsaka hver staðan er og hvað er hægt að gera og síðan er þá að skoða hver kostnaðurinn verður og hver muni borga brúsann það. Það er eitthvað sem er engan veginn hægt að svara akkúrat núna,“ segir Aðalheiður

Hún er bjartsýn á að Bretar vilji með einhverjum hætti taka þátt í að leysa málið. „Þeir svöruðu alla vega okkar bréfi og eru að senda sérfræðinga til að hitta okkur og skoða aðstæður þannig að já ég myndi segja að þeir hafi tekið okkur nokkuð vel.“