Varnargarðarnir ekki jafn sterkir og þeir áttu að vera

Mynd: rúv / rúv
Snjóflóðavarnagarðarnir í hlíðinni fyrir ofan Flateyri eru ekki jafn sterkir og talið var, þegar þeir voru byggðir árið 1998. Ekki er víst að garðarnir gætu gripið flóð á borð við það sem féll 1995 að fullu. Það kom verkfræðingi á óvart að flóðið sem féll úr Innra- Bæjargili í nótt næði að hluta yfir garðinn því aðstæður á svæðinu hafa oft verið verri. Hugsanlegt er að annað flóð hafi fallið nokkru áður og breytt garðinum í eins konar ramp.

Það var verkfræðistofan VST, nú Verkís, sem hannaði varnargarðana árið 1997. Kristín Martha Hákonardóttir, hefur starfað hjá stofunni síðan 2005. Hún er byggingaverkfræðingur, hefur sérhæft sig í snjóflóðavörnum og þekkir vel til A-laga mannvirkisins í Eyrarfjalli. Hlýða má á allt viðtalið við Kristínu í spilaranum hér fyrir ofan.  

„Það kom ekki á óvart að flóð gætu farið yfir garðinn, eftir nánari greiningar, bæði á ummerkjum eftir flóð á garðinum og svo þessum nýju reiknilíkönum sem við höfum tiltæk núna þá var ljóst að stór flóð gætu farið yfir garðinn og þess vegna voru rýmingarreitir neðan garðsins,“ útskýrir Kristín Martha.  Hún telur hugsanlegt að annað flóð hafi fallið úr bæjargili fyrr í gær og búið til eins konar stökkpall fyrir það næsta. Við hönnun varnargarða er ekki gert ráð fyrir að fleiri en eitt flóð falli á þá með stuttu millibili. Hún telur þörf á því að endurskoða varnargarðana á Flateyri. „Alls staðar þar sem kemur í ljós að hættusvæði eru neðan við varnir í byggð, kannski eftirá, þá eru varnirnar endurskoðaðar en það verður kannski ekki farið í gagngera endurskoðun á því hvernig og hvort breyta eigi garðinum hérna því það á eftir að byggja varnir á svo mörgum stöðum á Íslandi. Það er mögulega brýnna, forgangsröðunin hefur að minnsta kosti verið svoleiðis." 

Kristín Martha og fleiri fræðimenn hafa skorað á stjórnvöld að byggja hraðar upp. „Við myndum gjarnan vilja sjá allt það fjármagn sem er í Ofanflóðasjóði fara í uppbyggingu varna til þess að lágmarka þessa hættu eins fljótt og auðið er. Það var markmiðið með lögunum, að reisa varnir hratt fyrir ofan þessar byggðir þannig að það þyrfti ekki að koma til slysa.“ 

Í færslu sem Kristín Martha skrifaði á Facebook í dag, ítrekar hún þessa áskorun, sem send var stjórnvöldum síðastliðið haust. Einungis sé búið að verja um helming þeirra svæða þar sem snjóflóðahætta er yfir ásættanlegum mörkum og nægir fjármunir í ofanflóðasjóði til að ljúka verkefnunum á næstu tíu árum. 

Er verið að stefna lífi fólks í hættu með því að byggja ekki hraðar upp?

„Það má draga þá ályktun, já.“ 

„Það eiga allir að geta sofið rólegir í húsunum sínum“

Fylgir því kannski bara ákveðin áhætta að búa á Flateyri, áhætta sem íbúar þurfa að sætta sig við? Kristín Martha svarar því neitandi. „Það ætti ekki að þurfa að vera það, til þess voru lögin sett. Til að allir íbúar þessa lands gætu sofið rólegir í húsunum sínum. Það eru þau hættuviðmið sem miðað er við, eftir byggingu varna á ekki að fylgja því áhætta að búa á svona stað.“