Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Varnargarðar lagaðir fyrir fyrstu haustlægðina

Mynd með færslu
 Mynd: Sveitarfélagið Skagafjörður - Facebook
Undibúningsvinna vegna viðgerða á varnargörðum á Sauðárkróki er hafin. Langur kafli er skemmdur eftir óveðrið í desember. Stefnt að því að ljúka viðgerðum fyrir haustlægðirnar.

Miklar skemmdir urðu á varnargörðum á Sauðárkróki í óveðrinu í desember.  Mikið af möl og grjóti skolaðist úr varnargarðinum við strandveginn sem er rúmlega kílómetri að lengd ásamt því að það gróf undan garðinum sjálfum. Þá urðu skemmdir á varnargarðinum á Skarðseyrinni, sem liggur þvert á hafnargarðinn. Þar er skarð í garðinum á um 20 metra kafla og verulegar skemmdir á garðinum í heild.

Hönnunarvinna í gangi

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir undirbúningsvinnu fyrir viðgerðir þegar hafnar. Vegagerðin hafi komið í nokkur skipti og skoðað aðstæður, til dæmis með dróna. Hann segir að stefnt sé að því að ljúka undirbúningsvinnu í vor eða byrjun sumars. Þá verði verkið boðið út og stefnt að því að framkvæmdum ljúki fyrir fyrstu haustlægðirnar. Kostnaður við framkvæmdirnar liggur ekki fyrir en Sigfús segir hann falla að mestu leyti á Vegagerðina.

Aðstæður í febrúar sjaldséðar

Í þrígang hefur sjór streymt yfir hafnarsvæðið og valdið vinnustöðvun með tilheyrandi tjóni hjá fyrirtækjum á svæðinu. Nú síðast í febrúar. Sigfús segir aðstæður eins og í febrúar skapast á um 40-50 ára fresti. Engu að síður sé mjög mikilvægt að bregðast eins hratt við og hægt er til að verjast frekara tjóni.