Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Varði heiður gallabuxna á þingi

04.07.2013 - 11:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varði tæpum tveimur mínútum á síðasta degi sumarþings til að fræða þingheim um gallabuxur. Forseti Alþingis sendi fyrir skömmu Elínu heim til að skipta um buxur þar sem hann taldi þær líkjast um of gallabuxum.

Elín tók til máls undir liðnum „störf þingsins“. Hún sagði mikilvægt að Alþingi væri ekki forpokað og að nauðsynlegt væri að eyða ekki tíma þess í óþarfa þvaður. Hún vildi vinna að því af öllu hjarta að endurreisa traust Alþingis, hún yrði hins vegar að verja heiður gallabuxna.

Að svo komnu máli rakti hún sögu gallabuxna sem eiga, að sögn þingmannsins, rætur sínar að rekja til ítölsku borgarinnar Genóa á 19.öld. Þær urðu brátt vinsælar meðal sjómanna þar sem þær þóttu endingagóðar.  

Seint á 19.öld bárust þær svo til Bandaríkjanna, að sögn Elínar. Og bætti því við að þær  hafi fyrst sést í Sovétríkjunum árið 1957 og urðu strax eftirsóttar meðal almenings en ófáanlegar. „Enda taldar merki um vestræna, kapítalíska villutrú.“ 

Elín sagði að það viðgengist ákveðið misrétti á Alþingi - litaðar gallabuxur væru leyfðar, ekki bláar.