Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Varð skyndilega pólitísk eftir 67 ára afmælið

Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir / Arnhildur Hálfdánardóttir
„Ég var aldrei pólitísk, fyrr en eftir að ég komst á lífeyrisaldur,“ þetta segir Auður Dóra Haraldsdóttir. Hún var þjónustufulltrúi í Íslandsbanka í aldarfjórðung og hætti þar 65 ára. Nú undirbýr hún mótmælaaðgerðir með fleirum úr Gráa hernum, vill berjast, hvort sem það er fyrir réttindum sinnar kynslóðar eða þeirrar sem á eftir kemur. Um níu þúsund eldri borgarar búa við fátækt og margir eru ósáttir við kjör sín.

Virk og sátt með lífið

Auður var búin að undirbúa sig vel fyrir starfslok en tekjutapið kom engu að síður á óvart. „Ég varð sjötug í sumar og er mjög sátt með lífið og tilveruna, ég er heppin að vera heilsuhraust og er mjög virk kona, er í gönguhóp og sundleikfimi og bara virkilega að njóta lífsins.“

Byrjaði tólf ára í humrinum

Auður hætti að vinna þegar hún var 65 ára, hafði þá unnið hjá Íslandsbanka í mörg ár og þar á undan við skrifstofustörf. „Ég hafði val, mátti vinna til 67 en ég ákvað að hætta að vinna 65 ára, var á hálfum launum hjá bankanum til 67 ára og tók út lífeyrissjóðinn á móti. Mér fannst þetta komið gott, ég er Vestmannaeyingur og byrjaði mjög ung að vinna, byrjaði að vinna í humri 12 ára gömul, við vinkonurnar. Þetta var algengt og þegar maður byrjar svona ungur að vinna er maður alveg búinn að fá nóg þegar maður er kominn á þennan aldur, allavega ég. Svo á ég barnabörn og vildi fá að vera meira með þeim, hef virkilega notið þess.“

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Auður nýtur frjálsræðisins sem fylgir því að vera hætt að vinna. Hún er virk og hefur nóg að gera.

Hissa yfir tekjutapinu

Auður segist ekki ósátt við sitt hlutskipti en hún sé ósátt við hlutskipti margra sem komnir eru yfir 67 ára aldur, ríkið hafi ekki komið til móts við þennan hóp. „Sjálf er ég ekki með góðan lífeyri, við borguðum í VR og VR er ekki að mínu mati góður lífeyrissjóður vegna þess að hann er svo stór. Ég var sjálf voðalega hissa hvað ég hafði lítið út úr þessu, ég byrjaði samt að skoða þetta í kringum sextugt, spá og spekúlera svolítið í lífeyrissjóðnum, hvað ég myndi h afa á milli handanna. Þetta er ekki nógu gott, því miður.“

Skuldleysið hjálpar

Auður segir ráðstöfunartekjur sínar hafa dregist saman um um það bil hundrað þúsund krónur á mánuði eftir að hún hætti að vinna. Hún greiddi í þrjá lífeyrissjóði og fær 134 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, þar af 93 þúsund krónur úr VR. Á móti koma greiðslur frá Tryggingastofnun. Samtals geri þetta 270 þúsund krónur. „Ég er svo heppin eða raunsæ kannski að ég er ekki með skuldir á bakinu, á mína íbúð næstum skuldlausa, ef þú skuldar eitthvað eða ert á leigumarkaði þá gerir þú ekkert fyrir þennan pening, það segir sig sjálft.“ 

Hefði viljað borga í séreignarsparnað í staðinn

Auður segir skuldleysið hjálpa en nefnir líka séreignarsparnaðinn, hann geri henni kleift að njóta lífsins, fara í ferðalög og lifa lífinu lifandi. „Ég hef oft hugsað með sjálfri mér, til hvers erum við að borga í lífeyrissjóð, þegar upp er staðið er þetta svo lítið sem venjulegur Jón eins og ég hefur milli handanna. Margur sem hefur unnið hjá ríki og bæ er í mun betri stöðu en ég. Ef ég hefði fengið að borga, hefði það verið komið á þessum tíma, 1969, þegar maður byrjaði að borga í lífeyrissjóð. Hefði ég fengið að borga í séreignarsjóð eins og ég er búin að gera frá því hann var stofnaður þá væri staða mín allt önnur í dag.“ 

Aldrei farið í mótmælagöngu en tilbúin núna

Auði finnst illa komið fram við eldri borgara, margir uppskeri lítið eftir ævilangt púl. „Okkur svíður það að við skulum ekki fá það sem við lögðum fyrir, ríkið skerðir 45% af lífeyrissjóðnum. Þegar við byrjuðum að borga í lífeyrissjóð var okkur sagt að hann væri bara bónus við það sem við fengjum frá Tryggingastofnun. Því miður er það ekki þannig í dag. Við erum búin að vera að berjast fyrir þessu, ég er búin að vera að vinna með Grá hernum, við erum á leiðinni í málaferli við ríkið en það tekur bara svo langan tíma og ég hugsa, mun ég lifa þetta af, en allt í lagi, ef ég geri það ekki er ég bara að vinna fyrir hina, næstu kynslóð lífeyrisþega. Við ætlum að fara að ræða við fólk á landsbyggðinni sem er orðið eldri borgarar, við viljum láta í okkur heyra og hafa hátt á Austurvelli. Ég hef aldrei farið í mótmælagöngu en ég er svo sannarlega tilbúin að gera það núna og ég hef aldrei verið pólitísk, fyrr en ég varð 67 ára gömul, þá fór ég bara að hugsa: Ætla ég að láta endalaust traðka á mér?“

Telur konur vilja gera meira með barnabörnunum

Auður telur stöðu kvenna oft ólíka stöðu karla. Konur séu oft virkari og vilji gera meira með barnabörnunum. „Við vorum að ræða saman nokkrar konur um daginn, eins og gerist, og ein sagði að pabbi hennar hefði það bara ágætt á sínum eftirlaunum. Ég sagði, það er gott að heyra, og spurði hvort hann byði barnabörnunum í leikhús, hvort hann gæfi þeim afmælisgjafir, hún svaraði neitandi og ég sagði, jæja, þá er ekki skrítið að hann lifi á þessum eftirlaunum. Við konur, okkur langar að halda áfram að lifa lífinu, við erum félagsverur og við viljum  vera með barnabörnunum okkar, gera eitthvað aðeins meira en að gefa þeim kaffisopa eða mjólkursopa. Ég hvet ríkisstjórnina til að skoða málefni eldri borgara, það er skömm af því hvernig er komið fram við okkur.“ 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Auður telur að það lendi frekar á konum að bjóða barnabörnum hitt og þetta.