Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Varð fyrir alvarlegum heilaskaða í aðgerð

17.04.2018 - 18:55
Mynd: Kveikur / RÚV
Foreldrar sex ára drengs sem varð fyrir alvarlegum heilaskaða vegna læknamistaka í aðgerð á Landspítalanum kalla eftir breytingum á rannsókn læknamistakamála. Talsmaður spítalans segir það tímabært en tillögur um stofnun óháðrar rannsóknarnefndar hafa legið á borði stjórnvalda frá 2015.

Rétt sjö vikna gamall varð Guðjón Óli Jónsson fyrir alvarlegum heilaskaða vegna súrefnisskorts sem rakinn eru til mistaka í aðgerð og eftirmeðferð á Landspítalanum. Hann glímir í dag við heila-, hreyfi- og þroskahömlun. Hann getur ekki tjáð sig og þarf sólarhringsumönnun.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Málið var rannsakað af embætti landlæknis.

Spítalinn tilkynnti ekki málið

Landlæknisembættið sér um að rannsaka læknamistakamál en einhverra hluta vegna tilkynnti Landspítalinn ekki um atvikið hingað til embættisins heldur kom það í hlut foreldra Guðjóns Óla. Af þeim sökum hófst rannsóknin ekki fyrr en tæpu hálfu ári eftir aðgerðina.

Niðurstaða Landlæknis var að læknum hefðu orðið á alvarleg mistök í aðgerðinni. Hvorki brugðist við þeim né tilkynnt læknum sem tóku við Guðjóni eftir aðgerðina um ástand hans og gert þeim kleift að lágmarka skaðann. Þrátt fyrir þetta er bótamáli fjölskyldu Guðjóns Óla gegn Spítalanum enn ekki lokið nú sex árum síðar.

Úr umfjöllun Kveiks um Guðjón Óla Jónsson og mistök í aðgerð á Landspítalanum.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Guðjón Óli glímir við margskonar hamlanir eftir mistökin.

Vilja eftirlitsnefnd

Foreldrar Guðjóns Óla segja að reynsla þeirra sýni að breyta þurfi meðferð slíkra mála. „Klárlega vantar svona eftirlitsnefnd fyrir lækna. Við viljum sjá eitthvað svoleiðis,“ segir Þórdís Erla Björnsdóttir, móðir hans. Jón Örn Stefánsson, faðir Guðjóns Óla, tekur í sama streng.

„Líka bara að ef eitthvað svona kemur upp þá sé bara haldið utan um fólk sem lendir í þessu. Það eru ekkert allir sem geta…Okkur var náttúrulega bent á að sækja þessar læknaskýrslur. En að halda dagbók og gera þetta alveg eins og við gerðum. Afla okkur upplýsinga. Hún sá svolítið bara um Guðjón og ég var bara í þessu. Því ef maður hefði ekki gert það þá hefði þetta ekki komið fram,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga við Landspítalann.

Tekur undir með foreldrunum

Í skýrslu starfshóps sem falið var að skoða leiðir til að bæta úr rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu sem skilað var 2015 var meðal annars lagt til að rannsókn yrði færð í hendur sjálfstæðrar eftirlitsnefndar og utanumhald yrði bætt. Lækningaforstjóri Landspítalans tekur undir með foreldrunum og segir Spítalann hafa hvatt stjórnvöld til slíkra breytinga.

 „Við hérna á Landspítalanum höfum óskað sérstaklega eftir því að stjórnvöld komi að svona málum með óháðum hætti. Það verði komið á fót viðbragðsteymi sem kæmi frá stjórnvöldum ekki ósvipað og tíðkast í samgönguslysum,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum.

Ítarlegri umfjöllun um málið má sjá í spilaranum hér að ofan.

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV