Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Varar við áti á svartfuglseggjum

20.05.2014 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Tífalt meira er af hættulegum efnum í svartfuglseggjum en heimilt er að sé í hænueggjum. Sérfræðingur hjá Matís ræður barnshafandi konum frá því að borða svartfuglsegg nema í mjög litlum mæli.

Nú er sá tími genginn í hönd þar sem aðdáendur svartfuglseggja tína þau eða kaupa sér í verslunum. Það er hins vegar ekki óhætt að eta ótakmarkað af eggjunum, segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Matís. Hún hefur rannsakað þau.

„Rannsóknin leiddi í ljós að í sjófuglseggjum á Íslandi er töluvert af þrávirkri lífrænni mengun eins og PCB og svoleiðis efnum", segir Hrönn.

Meðal sjófugla sem hafa of mikið af þrávirkum efnum er langvía sem er einn svartfuglanna. Og þetta efnainnihald er langt yfir hættumörkum segir Hrönn: „Miðað við hæsnaeggin þá fer þetta svona tíu sinnum eða rúmlega yfir mörk fyrir hæsnaegg".

Hrönn telur að konur á barneignaraldri sérstaklega ættu að takmarka svartfuglseggjaát: „Því þetta eru efni sem safnast upp í líkamanum okkur og þar af leiðandi í líkama tilvonandi mæðra og þau berast yfir í fóstur og þess vegna er ekki ráðlegt að konur á barnseignaraldri séu að borða svona matvæli mikið. En að borða kannski eitt egg á ári það er kannski ekki eitthvað sem það verður rosalegur skaði af en fólk ætti að vita af þessari áhættu".