Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Varaformaður VG leiður yfir skipan Árna

31.07.2014 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Varaformaður Vinstrihreyfingarinnar grænt framboð, kveðst vera leiður yfir því að þingmaður VG hafi verið skipaður sendiherra í gær með þeim hætti sem gert var. Formaður VG segir það sérkennilega stöðu að fulltrúi stjórnvalda á erlendri grundu standi í málaferlum við þau.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, skipaði í gær þá Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og Árna Þór Sigurðsson, alþingismann, í stöður sendiherra. Skipunin tekur gildi frá og með fyrsta janúar á næsta ári, en ekki fást upplýsingar um það hvar þeir verða sendiherrar.

Varaformaður VG ósáttur með skipan þingmanns VG

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2. Hann kvaðst vera leiður yfir því að þingmaður VG skyldi hafa verið skipaður með þessum hætti. „Þetta er vond upprifjun á liðnum tíma og ég er hálfleiður yfir því að þingmaður VG skuli vera viðriðinn þetta, að þessu sinni,“ segir Björn Valur sem telur að ekki eigi að skipa sendiherra með þessum hætti. „Ferlið á að vera allt annað, burtséð frá því hvort þessir herramenn séu hæfir eða ekki.“

Geir og Árni eru fyrstu fyrrverandi eða núverandi stjórnmálamenn sem skipaðir eru sendiherrar í sex ár, eða síðan árið 2008. Af þeim 47 sendiherrum sem skipaðir hafa verið undanfarin 20 ár, koma 12 úr heimi stjórnmálanna. Það er rúmlega 25% þeirra sem skipaðir hafa verið. 13 sendiherrar eru að störfum í utanríkisráðuneytinu. 

Katrín setur spurningamerki við skipan Geirs

Árið 2010 ákvað Alþingi að höfða mál gegn Geir vegna embættisverka hans þegar hann var forsætisráðherra í aðdraganda hrunsins. Ákæran var upphaflega í sex liðum, en hann var aðeins dæmdur fyrir einn. Honum var ekki gerð refsing og ríkissjóði gert að greiða málsvarnarlaun hans.

Síðar kærði Geir Landsdóm til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg þar sem hann telur að íslenska ríkið hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu í málinu. Í lok árs 2013 ákvað dómstóllinn að taka málið til skoðunar, en niðurstaða liggur ekki fyrir.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, setur spurningamerki við að Geir sé skipaður sendiherra. „Þetta er kannski fyrst og fremst sérstakt í ljósi þess að Geir á auðvitað í máli við íslensk stjórnvöld fyrir Mannréttindadómstólnum. Þannig að það er auðvitað sérstök staða að vera fulltrúi þessara sömu stjórnvalda um leið og maður á í málaferlum við þau. Og það er auðvitað eitthvað sem allir sjá.“