Varað við flóðum er gróðureldar slokkna

epa08199320 Pedestrians hold umbrellas during wet weather in Sydney, New South Wales (NSW), Australia, 07 February 2020. Heavy rain is drenching large swathes of eastern NSW, forcing road closures and sparking concerns about the risk of flash flooding.  EPA-EFE/PETER RAE AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Á austurströnd Ástralíu rignir nú eins og hellt sé úr fötu og flóð ógna mönnum og mannvirkjum víða, þar á meðal í stórborginni Sydney. Rigningin hefur slökkt risagróðureld sem gekk undir nafninu Currowan og sveið 5.000 ferkílómetra lands á 74 dögum, og enginn gróðureldur í Nýja Suður Wales er svo stór lengur, að hann kalli á hæsta viðbúnaðarstig. Vatnsveðrið er hins vegar svo mikið að gefnar hafa verið út viðvaranir vegna flóðahættu í staðinn.

Djúp lægð skammt undan ströndinn fer enn dýpkandi þar sem hún nálgast landið og spáin fyrir sunnudag gerir ráð fyrir mestu úrkomu sem sést hefur í Sydney og nágrenni um áratuga skeið. Sólarhringsúrkoman í Sydney mældist 98 millimetrar síðasta sólarhringinn og verður að líkindum enn meiri í dag.

Í bænum Cudgera Creek í Tweedskíri, skammt suður af Brisbane, var sólarhringsúrkoman ríflega þrefalt meiri en í Sydney, eða 320 millimetrar. Litlu sunnar, í bænum Kingscliff, var hún 250 millimetrar.

Flóðin hafa sett samgöngur úr skorðum á stórum svæðum, vegir hafa lokast og lestarteinar farið á kaf, auk þess sem truflun hefur orðið á flugi og ferjusamgöngum vegna veðurs. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi