Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vara við mengun á höfuðborgarsvæðinu

01.11.2019 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Auknar líkur eru á að loftmengun fari yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum, sérstaklega á morgnana og um miðjan daginn. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Strætó hvetja fólk til að nota almenningssamgöngur, sameinast í bíla og sleppa óþarfa ferðum.

Samkvæmt veðurspám næstu daga er spáð þurru og hæglátu veðri á höfuðborgarsvæðinu. Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að þar sem frost sé í kortunum aukist líkur á að köfnunarefnis-díoxíðmengun verði mikil í borginni.  

„Það geta myndast hitaskil yfir í borginni og þá helst þessi köfnunarefnis-díoxíðsmengun gjarnan yfir í lengri tíma og þá förum við að sjá há gildi, sérstaklega í tengslum við stóru umferðartoppana á morgnana og í eftirmiðdaginn,“ segir Svava. 

Hún segir að þar sem köfnunarefnis-díoxíð komi eingöngu frá umferð bíla í Reykjavík mæli heilbrigðiseftirlitið með því að fólk reyni að draga úr notkun einkabílsins. Nota almenningssamgöngur, sleppa ferðum sem hægt sé að fresta, ganga eða hjóla. „Sameinast um bíla til þess að það séu færri bílar í umferð. Það er oft bara einn ökumaður í bíl og þetta náttúrlega eykur mengunina í borginni.“

Svava hvetur fólk til að fylgjast með mengun á upplýsingavef Umhverfisstofnunar. Í hádeginu var mengunin mest við Grensásveg. „Þar eru gildi köfnunarefnisdíoxíðs há en einnig gildin fyrir brennisteinsvetni há þar í dag.“ 

Svava segir að þessi efni hafi ertandi áhrif á slímhúð í öndunarfærum fólks. „Þeir sem eru viðkvæmir fyrir, eru með astma eða aðra öndunarfærasjúkdóma, geta fundið fyrir óþægindum þegar þetta efni er í miklu magni. Og þetta hefur ýmis óæskileg heilsufarsáhrif og það á að reyna að hafa þetta efni í sem lægstum styrk ef unnt er.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV