Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vann með fangelsuðum röppurum

Mynd: Ingibjörg Friðriksdóttir / Ingibjörg Friðriksdóttir

Vann með fangelsuðum röppurum

13.06.2019 - 12:00

Höfundar

Hvað á Kim Kardashian sameiginlegt með Ingibjörgu Friðriksdóttur? Jú, báðar hafa þær heimsótt San Quentin fangelsið á síðustu mánuðum, sú fyrrnefnda sem aktívisti en sú síðarnefnda til að vinna að tónlistarverkefni fangelsisins. „Þú ert kannski 18 ára og þú ert kominn með margra áratuga dóm og þá kannski saknarðu mömmu þinnar (...) mjög mikið af textunum fjalla um: Þú þarft ekki að lenda í þessu, ekki gera það því þú endar hér.“

Tónlistarkonan Ingibjörg Friðriksdóttir er nýkomin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún starfaði meðal annars í San Quentin fangelsinu. Verkefnið sem Ingibjörg vann að ásamt sænska tónlistarmanninum og fanganum David Jassy ber heitið San Quentin Mixtapes en þar rappa ungir afbrotamenn um lífið bak við lás og slá. Jassy hlaut dóm árið 2010 fyrir manndráp en hann á fyrst möguleika á reynslulausn árið 2024.

„Þetta er kannski andstæðan við það sem maður kallar gangsta-rapp,” segir Ingibjörg.  

„Mjög mikið af þeim voru þá í gengjum og í slæmum félagsskap (...) alla sína æsku. Síðan ertu kominn inn í fangelsi, þú ert kannski 18 ára og þú ert kominn með margra áratuga dóm og þá kannski saknarðu mömmu þinnar. Þannig að þeir eru í rauninni kannski allt í einu farnir að horfa á allt sem hefur gengið á og mjög mikið af textunum fjalla um: Þú þarft ekki að lenda í þessu, ekki gera það því þú endar hér.”

Aukin völd fræga fólksins

Ingibjörg ræddi annan „sjálfboðaliða” San Quentin fangelsisins í Lestinni á Rás 1 í síðustu viku. Þá var raunveruleikastjarnan, Kim Kardashian, nýbúin að heimsækja fangelsið í annað skipti. Kardashian heimsótti David Jassy á meðan Ingibjörg starfaði með honum og ræddi við hann um tónlist og fangelsismál. Í vikunni sem leið heimsótti hún svo dauðadæmdan mann. Í kjölfar heimsóknarinnar lýsti hún yfir þeirri trú sinni að maðurinn, Kevin Cooper, sé saklaus af þeim morðum sem hann er dæmdur fyrir.

Þó Kardashian sé þekktust fyrir lögulegan líkama og neysluhyggju hefur hún átt beina aðild að frelsi minnst 17 fanga. Með frægð sinni náði hún til að mynda eyrum Donalds Trumps en eftir fund með forsetanum féllst hann á að binda enda á fangavist Alice Johnson sem hafði fengið lífstíðardóm fyrir sitt fyrsta og eina fíkniefnabrot. Ingibjörg bendir á að á meðan hún starfaði í San Quentin hafi fjölmargir frægir heimsótt fangelsið.

„Ég held jafnvel að þessi aukning á heimsóknum fræga fólksins inn í fangelsin sé bara beintengt því að Trump er forseti og hvernig hann ákveður að stýra,” segir Ingibjörg. „Hann er búinn að gefa þeim fullt af völdum af því að hann hlustar á þau. Þannig að í rauninni þarf frægt fólk í Bandaríkjunum allt í einu svolítið að endurskoða þá stöðu sem það er með.”

Hvað Kim Kardashian varðar segir Ingibjörg að engin komist í hennar stöðu án dugnaðar. „Margir kannski vilja trúa þvi að konur eins og Kim Kardashian sem eru frægar fyrir líkamann sinn og kapítalísera jafnvel á því… þær eiga líka að vera heimskar. Og mér finnst það vera skemmtilegur vinkill að kannski séu þær það ekki. Að maður geti verið bæði einhvers konar „power-kona” og safnað „like-um” á samfélagsmiðlum.”

Tengdar fréttir

Kim komið að frelsun sautján fanga

Norður Ameríka

Trump varð við beiðni Kardashian

Stjórnmál

Trump og Kardashian funda um fangelsismál