Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vanlíðanin mest meðal pólskra og asískra ungmenna

Mynd: Rúv / Rúv
Ungmenni af erlendum uppruna njóta síður stuðnings foreldra, vina og bekkjarfélaga, en ungmenni af íslenskum uppruna. Það skýrir að hluta verri líðan og minni lífsánægju þeirra. Önnur atriði, svo sem bágari efnahagur fjölskyldu, að búa ekki hjá báðum foreldrum eða að foreldrar séu án atvinnu, tengjast einnig verri líðan og minni lífsánægju ungmenna. 

Lífsánægja tengd félagslegum tengslum og stuðningi

Þetta er meðal niðurstaðna doktorsverkefnis Eyrúnar Maríu Rúnarsdóttur. Doktorsritgerðin fjallaði um félagsleg tengsl og stuðning við unglinga af ólíku þjóðerni, sem tengist líðan unglinganna og lífsánægja ungmenna, þá einna helst efnahagslegum bakgrunni fjölskyldu og hverfis, segir í ágripi verkefnisins.

Sjónum var beint að því hvernig unglingarnir upplifa stuðning úr nánasta tengslaneti, svo sem frá vinum og fjölskyldu, oghverfi sínu, en þekkingu hefur skort á þessum þáttum. 

Mikilvægið kom á óvart

Í Mannlega þættinum á Rás 1 í dag sagði Eyrún að helst hefði komið á óvart hversu mikilvægur efnahagslegur og félagslegur bakgrunnur sé fyrir líðan unglinga og að, tilteknum hópum að minnsta kosti, sé þessi bakgrunnur lakari og krakkarnir líði fyrir það að vera af efnaminni fjölskyldum.

Þá segir hún að niðurstöðurnar hafi leitt í ljós að lítill munur sé á hverfum hér á landi, sem sé jákvætt. Þegar munurinn er til staðar, skili ávinningur þess að búa í skólahverfi þar sem efnahagsstaða fjölskyldna var betri, sér hins vegar síður til unglinga af erlendum uppuna en innlendum. Skoða þurfi hvað búi þar að baki. Eyrúnu grunar að það tengist umræddu tengslaneti.

Ber að forðast alhæfingar

Þá segir hún að það þurfi að vara sig á alhæfingum. Hópur innflytjenda hér á landi, líkt og annars staðar, sé gríðarlega víðfeðmur og fjölbreyttur. Til að mynda, þegar litið sé á hópinn í heild, komi í ljós að hluta barna af erlendum uppruna hér á landi, líði betur en íslensku ungmennunum. 

Hins vegar, þegar hópur pólskra og asískra ungmenna sé skoðaður, komi í ljós talsvert meiri vanlíðan og minni lífsánægja, samanborið við ungmenni sem eru íslensk að uppruna. Þá búi þessir hópar að jafnaði við lakari félagslega og efnahagslega stöðu.

Mikilvægt að bæta stöðu innflytjendafjölskyldna hér á landi

Í ágripi ritgerðarinnar segir að niðurstöður verkefnisins undirstriki mikilvægi þess að bæta stöðu innflytjendafjölskyldna á Íslandi og huga betur að þeim stuðningsúrræðum sem eru til staðar og standa ungmennum af erlendum uppruna til boða.

Í viðtalinu í Mannlega þættinum segir Eyrún að næst ætli hún að skoða stöðuna hér á landi í samanburði við stöðuna annars staðar í heiminum.