Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vanhelg bók um djöfulsins öfugsnúnu furður og stórmerki

Mynd: RÚV / RÚV

Vanhelg bók um djöfulsins öfugsnúnu furður og stórmerki

15.12.2019 - 15:02

Höfundar

Skáldsagan Björn og Sveinn - eða makleg málagjöld - eftir Megas hefur verið endurútgefin en bókin kom fyrst út árið 1994 og er fyrsta og eina skáldsaga Megasar.

Bókin byggist meðal annars á þjóðsögum um feðgana og misindismennina Axlar-Björn og Svein skotta og greinir frá ferðalagi þeirra um næturlíf og undirheima Reykjavíkur, ódæðisverkum og fýsnum þeirra grimmum. Það er bókaforlagið Sæmundur sem gefur út en verkið hlaut vægast sagt blendnar viðtökur á sínum tíma, fyrir tuttugu og fimm árum.

„Hún var náttúrlega ótímabær á allan hátt, '94,“ segir Megas um Björn og Svein. „Mig minnir að bækur á jólamarkaðinum hafi verið tvö hundruð síður og ekki meir, en þessi kom þarna þykk, innan um tvöhundruð síðna bækur, og bara, það var ekki að geði lesenda.“ Geir Svansson bókmenntafræðingur ritar ítarlegan og einkar fróðlegan eftirmála í nýju útgáfunni, þar sem hann setur þetta alræmda verk Megasar í samhengi við innlendar og erlendar bókmenntir, vanhelga hefð höfunda á borð við Marquis de Sade, Comte de Lautréamont og William S. Burroughs. Hann mátar verkið við módernisma, póstmódernisma og (ó)módernisma, og kemst að þeirri niðurstöðu að sagan sé tímalaus og eigi sannarlega skilið meiri athygli, skáldsagan um Björn og Svein sé allt í senn „mögnuð, einstök og róttæk.“

Don Juan í undirheimum Reykjavíkur 

Megas segir kveikju sögunnar hafa verið frekar órómantíska og ópóetíska. „Bróðir minn sagði, nú er kominn tími á skáldsögu, og ég sendi þér hérna bækur sem þú getur haft til hliðsjónar, þetta skal vera menipísk satíra, og hann sendi mér Huggun heimspekinnar og Satýrikon.” Megas segist ekki hafa haft úr miklu að moða þegar hann hófst handa við skrifin, „allt um Svein skotta er náttúrlega á svo penu máli hjá biskupum og ýmsum skrifurum.“ Víða er leitað fanga í þessu fjögur hundruð síðna verki, í hinu háa og lága, innlendum og erlendum bókmenntum.

Mynd með færslu
 Mynd: Sæmundur

„Þegar ég var búinn að ákveða að nota þessi náttúruöfl þá kom náttúrlega upp í hugann Don Juan,” segir Megas, „og ég hugsaði með mér, það er svo mikið gert í heiminum, alltaf verið að gera eitthvað nýtt og nýtt, en það er kannski ekki fullnýtt sem er þegar búið að gera, og datt í hug að uppdatera söguna af Don Juan í undirheimum Reykjavíkur.” Og rétt eins og Don Juan forðum, í spænska 17. aldar leikritinu um bragðarefinn frá Sevilla og steingestinn, eftir Tirso de Molina, og óperu Mozarts, Don Giovanni, fá þeir Björn og Sveinn makleg málagjöld í verki Megasar, í samræmi við glæpi þeirra, fólskuverk og óblandna illsku. „Nú höfum við illsku sem tekur þessu öllu fram, í kringum okkur, mann sem sveltir milljónaþjóð eins og ekkert sé,” segir Megas aðspurður um þá hreinræktuðu illsku sem lýst er í bókinni, þá rannsókn á hinu illa sem verkið geymir.

Mislukkuð skáldskapartilraun, illskiljanlegur vaðall, vitundarlítið orðafyllerí

Skáldsagan Björn og Sveinn hlaut eins og áður segir blendnar viðtökur, margir kváðust fátt sjá annað en mislukkaða skáldskapartilraun, illskiljanlegan vaðal og „amfetamínbólginn” texta, „vitundarlítið orðafyllerí”, sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins. „Ég held að enginn gagnrýnandi hafi komist lengra en á fjórðu síðu eða fimmtu því þar byrjar mikið efni fyrir niðurtætara,” segir Megas, sem segir í verkinu sjálfu að það sé ekki öllum gefið að stafa þessa bók á enda. Aðrir lofuðu hugrekki og frumleika höfundar og sögðu magnaða sögu hér á ferð, sem ætti sér ekki hliðstæðu í íslenskum bókmenntum, róttæka hvað stíl og hugmyndir snertir - magnað samtal við avantgard heimsbókmenntanna sem birtist hvað skýrast í skáldskap súrrealista og sporgöngumanna þeirra á liðinni öld. 

Akademían hristir höfuðið

Geir Svansson ýjar að því í eftirmála sínum að mögulega hafi á sínum tíma, árið 1994, ekki verið pláss fyrir skáldsöguna Björn og Sveinn í hinum pena og stundum pempíulega íslenska bókmenntaheimi. „Örugglega var ekki pláss fyrir hana þá og maður veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, hvort það er pláss fyrir hana enn þá. Mér heyrðist á Bjarna Harðarsyni að þeir akademíkerar sem hann hefði rætt við hefðu alveg bara hrist höfuðið.”

Megas segist ekki hafa lagt upp með það í upphafi að brjóta eins margar reglur og hann mögulega gæti, fara yfir eins mörk mörk og mögulegt var, en að hinir alræmdu karakterar hafi fengið fast snið strax. „Síði frakkinn hans Bjarnar og svo leðurjakkinn hans Sveins og sömuleiðis þessi mælgi í Sveini en Björn er oftast nær fáorður.” Í verkinu rekur Megas ekki aðeins gamlar þjóðsögur af þeim Birni og Sveini og færir þær til nútímahorfs, heldur liggur meira undir, mögulega sú þjóðsaga sem er íslenska lýðveldið. „Það er látið liggja að því að spillingin hafi komið með Bretagullinu, en ekkert fullyrt um það og engin áhersla lögð á það.” Sem fyrr segir er víða leitað fanga í þessari miklu skáldsögu, meðal annars til Reykjavíkursagna eftir íslenska rithöfunda á borð við Elías Mar og Guðberg Bergsson. „Ég hafði bókabunka við hliðina á mér,” segir Megas „það var til dæmis Vögguvísa, það var Hjartað býr enn í helli sínum, því ég ætlaði að hafa þetta Reykjavíkursögu þó hún sé svolítið dreifð um sveitir.”

Aðeins einu sinni ratað í jólapakkana

Megas treystir sér ekki til að spá fyrir um það hvernig viðtökur skáldsögunnar um Björn og Svein verða nú, tuttugu og fimm árum eftir að bókin kom fyrst út en rifjar upp orð föður síns sem sagði við hann, þegar hann falaðist hjá honum eftir efni um Björn og Svein: „Það kemst enginn óskaddaður frá Birni á Öxl.“ Hann segist aðeins einu sinni á sínum langa ferli ratað í jólapakkana, það var þegar hljómplata hans Loftmynd kom út árið 1987, „og menn brjáluðust á nýja árinu. Ég mun aldrei komast svo langt inn að það verði ekki frekar stutt út aftur.“

Rætt var við Megas í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Tónlist

Stuðmannalög í flutningi Ham og sungin af Megasi

Tónlist

Megas umvafinn

Tónlist

Dökk jól og Jesúrímur

Tónlist

Órannsakanlegir - Megas í Vikunni með Gísla